Tónleikar og útgáfa plötu í tilefni af aldarafmæli Jórunnar Viðar

Jórunn Viðar

Jórunn Viðar tónskáld og píanóleikari hefði orðið 100 ára árið 2018, líkt og fullveldið. Af því tilefni munu Erla Dóra Vogler, mezzósópran, og Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanóleikari, gefa út geisladisk með sönglögum hennar og halda tónleika dreift yfir árið víðs vegar innan landsteinanna sem utan, til að heiðra aldarminningu hennar.

Þær Erla Dóra og Eva Þyri héldu tónleika á vegum sendiráðsins í Berlín í mars, en fyrstu tvennu tónleikarnir á Íslandi verða í tónleikaröð KÍTÓN þann 29. apríl kl. 17:00 í Iðnó og 6. maí kl. 17:00 í Hofi á Akureyri. Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði og eru samstarfsverkefni KÍTÓN og Iðnó, auk þess sem tónleikarnir í Hofi eru styrktir af Menningarsjóði Akureyrar, Akureyrarstofu.

Jórunn er meðal dáðustu tónskálda þjóðarinnar og markmið tónleikanna er að kynna þann framúrskarandi og fjölbreytta arf söngljóða sem hún lét þjóðinni í té á starfsævi sinni. Flutningurinn verður líflegur og skemmtilegur og kryddaður frásögnum um hina mögnuðu konu sem Jórunnar Viðar var. Á efnisskránni eru bæði sönglög og þjóðlagaútsetningar eftir hana, en nokkur laganna heyrast mjög sjaldan, þar sem þau hafa ekki verið gefin út á prenti og tvö þeirra er svo að segja verið að endurlífga – Únglínginn í skóginum II og lagið Ung stúlka. Þá hafa nokkur laganna verið löguð að alt rödd, lækkuð úr sópranlegu, og önnur hafa hingað til einungis verið flutt af karlrödd, þótt textinn sé ekki kynbundinn.

Erla Dóra og Eva Þyri

Sumarið 2015 héldu Erla Dóra og Eva Þyri sérlega vel heppnaða tónleika með verkum Jórunnar Viðar í sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar þar sem fullt var út úr dyrum. Jórunn var viðstödd tónleikana ásamt dóttur sinni, Lovísu og lýsti yfir mikilli ánægju með túlkun þeirra og flutning. Mikil samskipti voru milli flytjenda og þeirra mæðgna, Jórunnar og Lovísu, og komu þær einnig á æfingar fyrir tónleikana. Þessir tónleikar voru þeir síðustu, sem Jórunn var viðstödd.

Í nokkur ár hafði staðið til að þær Eva Þyri og Erla Dóra hljóðrituðu hluta sönglaga Jórunnar og þótti við hæfi að loks yrði af því á 100 ára afmæli hennar. Því miður lést Jórunn Viðar á síðastliðnu ári, en allt fram í andlátið var tónlistin líf hennar og yndi. Erla Dóra og Eva Þyri hlutu 500 þúsund króna styrk úr Menningarsjóði Landsbankans til útgáfu geisladisksins, en á næstu tveimur vikum mun einnig verða opnað fyrir söfnun á Karolinafund til styrktar verkefninu.

Fésbókarsíða verkefnisins er hér: https://www.facebook.com/JorunnVidar100cd/

Fésbókarviðburðurinn er hér: https://www.facebook.com/events/211236626132942/