
Jórunn Viðar
Í tilefni af aldarafmæli Jórunnar Viðar tónskálds og píanóleikara hafa þær Erla Dóra Vogler mezzósópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari lagt upp með fjölda tónleika með sönglögum og þjóðlagaútsetningum Jórunnar auk útgáfu geisladisks á afmælisárinu.
Þær hafa verið hvattar áfram dyggilega af fjölskyldu Jórunnar Viðar og þá einna helst Lovísu Fjeldsted, dóttur Jórunnar og sellóleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem hefur veitt þeim góð meðmæli, aðstoð og ómældan stuðning.
Þessa dagana eru einmitt síðustu forvöð til að styrkja útgáfu geisladisks þeirra Erlu og Evu með 26 sönglögum og þjóðlagaútsetningum Jórunnar á áheitasíðu Karolinafund. Þeir Bjarni Rúnar Bjarnason og Georg Magnússon eru hljóðmeistarar og Þórunn Guðmundsdóttir listrænn ráðgjafi, en upptökur fóru fram í Hannesarholti í lok maí. Erla og Eva hafa þegar hlotið styrk fyrir útgáfunni úr Menningarsjóði Landsbankans og Hljómdiskasjóði, en sækjast eftir að fullfjármagna útgáfuna með áheitum. Söfnuninni lýkur 10. júlí og hægt er að heita á verkefnið hér: https://www.karolinafund.com/project/view/2076
Hér má hlusta á upptöku þeirra af útsetningu Jórunnar Viðar við þuluna Stúlkurnar ganga.

Eva Þyri og Erla Dóra
Það sem af er ári hafa þær stöllur haldið tónleika með lögum Jórunnar Viðar á vegum íslenska sendiráðsins í Berlín og í Iðnó og Hofi í klassískri tónleikaröð KÍTÓN. Í haust munu þær koma fram í Tónlistarmiðstöð Austurlands og útgáfutónleikar eru áætlaðir á fæðingardegi Jórunnar, 7. desember í Hannesarholti. Auk þess fengu þær styrk úr Tónalandi til að halda þrenna tónleika með lögum Jórunnar á landsbyggðinni árið 2019.
Hægt er að fylgjast með framgangi verkefnisins og næstu tónleikum á fésbókarsíðu verkefnisins: https://www.facebook.com/JorunnVidar100cd/