Jórunn Viðar – Söngvar: Útgáfutónleikar í Hannesarholti

Eva Þyri Hilmarsdóttir og Erla Dóra Vogler

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa þær Erla Dóra Vogler söngkona og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari fagnað aldarafmæli Jórunnar Viðar (1918-2017) undanfarna mánuði með tónleikahaldi víða um land (og í Þýskalandi).

Nú er komið að því að plata tengd verkefninu er að koma út og ber hún titilinn JÓRUNN VIÐAR – SÖNGVAR. Af því tilefni blása þær stöllur til útgáfutónleika í Hannesarholti við Grundarstíg 10, föstudagskvöldið 7. desember nk. kl. 20:00 en það er einmitt afmælisdagur Jórunnar sem hefði orðið 100 ára þann dag.

Uppselt er á útgáfutónleikana en settir hafa verið upp aukatónleikar daginn eftir, laugardaginn 8. desember kl. 17:00 einnig í Hannesarholti. Þrennir tónleikar í viðbót verða svo á nýju ári en staður og stund verða auglýst síðar.

Á útgáfutónleikunum verða flutt verk Jórunnar, sem sum hver hafa sjaldan eða aldrei verið flutt áður opinberlega og þeirra á meðal má nefna Únglíngurinn í skóginum II og Ung stúlka, ennfremur flytja þær Erla Dóra og Eva Þyri mörg af hennar þekktustu lögum og þjóðlagaútsetningum.

Að loknum tónleikunum verður platan sett í sölu en einnig er hægt að panta hana á Facebook-síðu verkefnisins. Hér má svo heyra upptöku af Þjóðlagi úr Álfhamri, sem finna má á plötunni.

Miða á tónleikana má nálgast á Tix.is.