Borgís (1975)

Borgís

Hljómsveitin Borgís starfaði í nokkra mánuði árið 1975.

Sveitin var stofnuð upp úr annarri sveit, Birtu en sú sveit hafði gengið í gegnum miklar mannabreytingar og varð úr að þáverandi meðlimir hennar, Ari Jónsson trommuleikari og söngvari, Atli Viðar Jónsson bassaleikari, Kristján Bárður Blöndal gítarleikari og Pétur Hjaltested hljómborðsleikari og söngvari tóku um Borgísar-nafnið um vorið 1975.

Þeir höfðu, áður en nýja nafn sveitarinnar var tekið upp, verið að vinna með frumsamið efni eftir Atla og fljótlega var farið í Hljóðrita í Hafnarfirði sem var þá nýtekið til starfað, til að taka upp tvö lög, Promised land og Give us a raise.

Borgís lék samhliða þessu á öldurhúsum höfuðborgarsvæðisins og þótt ágæt þar en útgáfa plötunnar seinkaði hins vegar þar sem tvær upptökur af sama laginu höfðu verið sendar út til plötupressunar og reyndar mun hafa verið búið að framleiða einhver eintök af plötunni áður en mistökin uppgötvuðust.

Þegar smáskífan kom loks út í júlí á vegum Demant-útgáfunnar fékk hún ágæta dóma í Vikunni. Um þetta leyti var Linda Gísladóttir söngkona orðuð við sveitina en þegar Pétri var boðin hljómborðsleikarastaða í Pelican, vinsælustu hljómsveit landsins, gat hann ekki annað en þegið boðið og yfirgaf því Borgís. Það var sveitinni að aldurtila þannig að platan fór ekki hátt þegar hún birtist í verslunum enda engin hljómsveit til að fylgja henni eftir.

Lögin tvö komu einnig út á safnplötunni Peanuts, sem Demant gaf út skömmu síðar.

Nokkrum mánuðum síðar endurreistu Ari, Atli og Kristinn sveitina ásamt Clyde Autrey en kölluðu hana þá Sheriff.

Efni á plötum