Afmælisbörn 11. janúar 2019

Tryggvi Hübner heiðursfélagi Blúsfélags Reykjavíkur 2018

Tvö afmælisbörn eiga daginn í dag:

Sigurður Rúnar Samúelsson (Siggi Sam) bassaleikari og fasteignasali frá Ísafirði er fjörutíu og sex ára gamall í dag. Sigurður, sem er af bassaleikaraættum (sonur Samúels Einarssonar í BG & Ingibjörgu) hefur leikið með ýmsum hljómsveitum á ferlinum s.s. Írafári, Hljómsveit Al Deilis, Bravó, Dægurlagakombóinu og Boogie knights svo fáeinar séu hér upp taldar.

Gítarleikarinn Tryggvi (Júlíus) Hübner er sextíu og tveggja ára í dag en hann hefur leikið með fjölda sveita í gegnum tíðina, Þjófar, Eik, Þorgils, Aldrei aftur, Bítlarnir, Faraldur, Haukar, Mátturinn og dýrðin, Fjörefni, Cabaret, Blues akademían, Friðryk, Garg, Bárujárn og Áhöfnin á Halastjörnunni eru einungis brot af þeim. Tryggvi hefur einnig gefið út sólóplötur og leikið inn á ógrynni platna með öðrum listamönnum.

Berti Möller (Bertram Henry Möller) söngvari og lögreglumaður (1943-2007) átti einnig afmæli á þessum degi, hann söng með hljómsveitum frá sjötta og fram á áttunda áratug síðustu aldar með sveitum eins og Diskó sextett, Hljómsveit Svavars Gests, Eron, Falcon, Hljómsveit Elfars Berg, KK sextett, Lúdó og Stefán, Sextett Berta Möller og Úranus sextett. Berti lék einnig á bassa í einhverjum ofangreindra sveita.