Valgarður Guðjónsson (1959-)

Valgarður Guðjónsson

Valgarður Guðjónsson söngvari Fræbbblanna var eitt helsta andlit íslensku pönksenunnar um og eftir 1980 en sveitin er enn starfandi.

Valgarður Þórir Guðjónsson (f. 1959) bjó í Kópavoginum og í Menntaskólanum í Kópavogi urðu Fræbbblarnir til þegar hann og nokkrir félagar hans lentu upp á kant við rektor og ákváðu að vera með skemmtiatriði á Myrkramessu skólans haustið 1978 af því tilefni. Sveitin starfaði áfram enda höfðu þeir félagar hlustað þá um tíma á breskt pönk, en hljómsveitin The Stranglers hafði einnig haldið tónleika hér á landi um vorið þetta sama ár.

Sveitin kom fram í sjónvarpi og sendi frá sér litla plötu 1979 sem markar þannig upphaf pönksenunnar hér á landi, og varð Valgarður nokkuð þekkt andlit.

Það verður eiginlega að koma fram hér utan dagskrár, að Valgarður var meðal frambjóðanda sólskinsflokksins sem bauð fram í Reykjaneskjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 1979. Flokkurinn hlaut níutíu og tvö atkvæði á landsvísu.

Valgarður var á þessum árum sínum um tvítugt, áhugamaður um kvikmyndir og var um tíma annar framkvæmdastjóra kvikmyndaklúbbsins Fjalarkattarins. Um svipað leyti, í miðju íslenska kvikmyndavorinu varð hann nokkuð áberandi þegar hann var titlaður aðstoðarleikstjóri kvikmyndarinnar Óðal feðranna (1980), hann lék einnig eitt af stærri hlutverkunum í Okkar á milli í hita og þunga dagsins í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar (1982) og smáhlutverk í mynd hans, Hrafninn flýgur  (1984), á þeim tíma var frumsýning íslenskra kvikmynda stórviðburður.

Á tónleikum með Fræbbblunum

Fræbbblarnir komu einnig við sögu í Okkar á milli sem og í Rokk í Reykjavík eftir Friðrik Þór Friðriksson en þar vakti sveitin nokkra hneykslan meðal eldri kynslóða þegar Valgeir kyrjaði „Í nótt, ég ætla‘ að ríða þér í nótt“, það féll þó í skuggann af öðrum atriðum myndarinnar.

Þegar Fræbbblarnir hættu (í bili) vorið 1983 stofnaði Valgarður hljómsveitina Fitlarann á bakinu sem starfaði um tíma, og sumar 1986 birtist hann með hljómsveitina Mamma var Rússi sem gaf út eina plötu, sú sveit var að mestu skipuð fyrrum Fræbbblum. Önnur sveit öllu skammlífari var hljómsveitin Dónar svo bláir (1989) og sama ár birtist hljómsveitin Glott sem var eins og Mamma var Rússi, mestmegnis Fræbbblar. Stjarna þeirrar sveitar reis hæst með útgáfu kassettu í samstarfi við Ríó tríó en hún var gefin út til styrktar Breiðabliki, þess má geta að Valgarður var um tíma formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks. Glott varð síðan að Fræbbblunum þegar safnplata kom út með þeirri sveit árið 1996, og síðan þá hafa Fræbbblarnir lifað ágætu lífi og gefið út nokkrar plötur. Flestar hljómsveit Valgarðs hafa verið í pönkaðri kantinum.

Valgarður er að mestu sjálfmenntaður tölvunarfræðingur og hefur starfað í hugbúnaðargeiranum alla tíð, bæði sjálfstætt og hjá öðrum. Hann hefur til langs tíma verið ómissandi í kosningasjónvarpi Ríkissjónvarpsins og haldið utan um tölvuvinnsluna þar, hann annaðist einnig tölvuvinnslu við HM í handknattleik sem haldið var hér á landi árið 1995. Þá vakti athygli fyrir löngu síðan þegar hann hannaði við annan mann forrit til að raða saman keppendum á skákmótum og síðar einnig forrit til bridge-sýninga en hann þykir sjálfur liðtækur skákmaður og bridge-spilari. Valgarður hefur í gegnum tíðina verið öflugur bloggari og ritað fjölmargar blaðagreinar t.d. um trúmál.

Valgarður hefur aldrei verið pönkari í eiginlegri merkingu orðsins þótt hann syngi í slíkri hljómsveit, hann hefur t.d. aldrei verið neitt sérlega pönklegur í útliti eða elt strauma og stefnur pönkímyndinnar s.s. anarkisma fremur en flestir aðrir pönkarar hérlendis, því verður þó ekki neitað að söngstíll hans er fremur sérstæður og þar á pönkhugtakið ágætlega við.