Mamma var Rússi (1986-88)

Mamma var Rússi

Mamma var Rússi starfaði í um eitt og hálft ár á síðari hluta níunda áratugar síðustu aldar, meðlimir hennar komu mestmegnis úr pönkhljómsveitinni Fræbbblunum sem þá hafði hætt störfum.

Sveitin var stofnuð sumarið 1986 og voru meðlimir hennar Stefán Guðjónsson trommuleikari, Arnór Snorrason gítarleikari, Tryggvi Þór Tryggvason gítarleikari, Valgarður Guðjónsson söngvari, Árni Daníel Júlíusson bassaleikari, Brynja Arnardóttir söngkona og Iðunn Dolly Magnúsdóttir, þriðja söngkonan mun hafa verið í upphafi en ekki liggja fyrir upplýsingar um nafnið á henni.

Mamma var Rússi kom að öllum líkindum ekki fram opinberlega fyrr en í febrúar 1987 þegar hún hitaði upp fyrir nýlega sveit sem bar heitið Síðan skein sól. Í kjölfarið kom sveitin nokkrum sinnum fram og sendi frá sér sjö laga plötu um haustið, hún bar tititlinn Draugar og var gefin út af Rokkfræðsluþjónustunni. Hún fékk mjög misjafna dóma í blöðunum, mjög slæma í Tímanum og Helgarpóstinum en þokkalega í DV og jafnvel ágæta í Morgunblaðinu. Draugar seldust mjög illa og síðar sagði Valgarður söngvari að hún hefði selst í um hundrað eintökum, þrátt fyrir það eru eintök af henni afar sjaldséð.

Sveitin hætti störfum í byrjun árs 1988.

Efni á plötum