Vladimir Ashkenazy (1937-)

Vladimir Ashkenazy

Vladimir Ashkenazy hefur stundum verið kallaður frægasti tengdasonur Íslands en hann er heimsþekktur píanóleikari og hljómsveitastjóri í klassíska geira tónlistarheimsins. Hann hefur haft mikil áhrif á íslenskt tónlistarlíf.

Vladimir Dimitri Davidovich Ashkenazy fæddist í Gorkí í Rússlandi (fyrrum Sovétríkjunum) sumarið 1937, hann flutti með foreldrum sínum til Moskvu þriggja ára gamall og hóf þar píanónám sex ára gamall. Faðir hans sem var músíkalskur, var píanóleikari og lék danstónlist með hljómsveitum og þangað sótti drengurinn tónlistargáfur sínar en það var ljóst fljótlega að þarna var á ferðinni undrabarn í tónlist.

Ashkenazy vakti fljótlega athygli fyrir hæfni sína við píanóið og varð brátt heimsþekktur píanóleikari, ekki síst eftir sigur hans í Tchaikovsky-tónlistarkeppnina sem haldin var í Moskvu 1962.

Hann hafði kynnst öðru undrabarni í píanóleik, Íslendingnum Þórunni Jóhannsdóttur sem þá var við tónlistarnám í Sovétríkjunum árið 1960 og kvæntist henni ári síðar. Fyrst um sinn bjuggu þau í Moskvu en eftir því sem frægð eiginmannsins jókst buðust tækifæri til tónleikaferða víða um heim og eftir eina slíka í Bandaríkjunum árið 1963 stöldruðu þau hjónin við í London þar sem foreldrar Þórunnar bjuggu, og þar sótti Ashkenazy um hæli sem pólítískur flóttamaður en Sovétríkin voru þá í raun lokuð og hafði hann ekki fullt ferðafrelsi til útlanda. Fréttaflutningur af málinu vakti heimsathygli enda var hann þá orðinn meðal þeirra fremstu í tónlistarheiminum.

Þau Þórunn og Vladimir bjuggu síðan hér á landi um tíu ára skeið á árunum 1968-78, hlaut hann þá íslenskan ríkisborgararétt og tók upp íslenska nafnið Valdimar Davíðsson. Á Íslandsárum sínum vöktu þau hjónin (og börn þeirra) athygli fyrir glæsileg heimkynni en þau létu byggja fyrir sig einbýlishús sem m.a. innihélt lítinn æfingasal með flygli, voru blöð og tímarit dugleg að vekja athygli á þeim íburði sem var þá flestum Íslendingum framandi.

Ashkenazy á heimili sínu í Reykjavík

Þórunn hafði þá fórnað sínum listamannsferli fyrir eiginmann sinn og studdi hann í einu og öllu, hann ferðaðist þá víða um heim og varð ennfremur þekktur fyrir hljómsveitastjórn, hann stjórnaði t.a.m. margoft Sinfóníuhljómsveit Íslands og var reyndar gerður að heiðurstjórnanda sveitarinnar árið 2002. Þá var hann gerður að heiðursforseta Listahátíðar í Reykjavíkur árið 1982 en hann hafði ásamt Ivar Eskeland (forstöðumanni Norræna hússins) verið helsti hvatamaður að stofnun Listahátíðar sem fyrst var haldin árið 1970. Þá hafði hann milligöngu um komu ýmissa þekktra listamanna hingað til lands, s.s. Pascal Rogé, Daniel Barenboim og Luciano Pavarotti svo fáein dæmi séu hér nefnd. Sjálfur hefur Ashkenazy margoft komið fram á Listahátíð, bæði sem einleikari og hljómsveitastjóri. Hann var jafnframt fremstur í flokki í áratugi hér á landi í baráttu fyrir byggingu tónlistarhúss og vóg vafalaust þyngst á metunum sem einstaklingur í þeirri baráttu sem lauk loks með opnun Hörpu vorið 2011. Það var því vel við hæfi að hann stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands við vígslun hússins.

Frá árinu 1978 hefur Ashkenazy fjölskyldan búið í Sviss, hann hefur þó í gegnum tíðina verið á sífelldum tónleikaferðum og þá hefur Ísland ekkert verið undanskilið í þeim efnum. Hann var um tíma aðalstjórnandi Tékknesku Fílharmóníuhljómsveitarinnar, stjórnandi Sinfónuhljómsveitarinnar í Berlín, stjórnandi NHK-sinfóníuhljómsveitarinnar í Tókýó, stjórnandi Konunglegu Fílharmóníusveitarinnar í London og tónlistarstjóri Ungmennahljómsveitar Evrópusambandsins, svo nokkur dæmi séu nefnd, þá hefur hann hlotið ótal verðlaun og viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistargyðjunnar, hér heima er hann t.d. verndari verkefnisins um Maxímús músíkús.

Frá árinu 1955 hafa hundruð hljómplatna og geislaplatna komið út með píanóleik Ashkenazys og hljómsveitastjórn hans, og eru þær enn að koma út.