Marteinn Bjarnar Þórðarson (1959-)

Marteinn Bjarnar Þórðarson

Litlar upplýsingar er að finna um Martein Bjarnar Þórðarson og tónlist hans en hann virðist hafa komið að a.m.k. þremur útgefnum titlum.

Marteinn Bjarnar (f. 1959) er myndlistamaður en hefur unnið heilmikið með tónlist í kringum list sína. Hann hafði leikið á trommur með hljómsveitum á sínum yngri árum, Svartlist og Fist / C.o.t., og árið 1994 kom út kassetta sem hann vann með Hildi Rúnu Hauksdóttur þar sem eins konar nýaldar- eða slökunartónlist var leikin á tíbetskar skálar. Kassettan bar titilinn Harmonics of frequency modulation en ekki er alveg ljóst hvort hún kom út í nafni Hildar einnar eða þeirra beggja.

Árið 1997 gaf Marteinn út einhvers konar nýaldarplötu undir sólóista-nafninu Harmonics of frequency modulation (sama nafn og kassettutitillinn þremur árum fyrr) en sú plata bar nafnið Vibe‘s. Afar takmarkaðar upplýsingar er að finna um þessa plötu sem og aðra sem hann gaf út í félagi við Sigurð Baldursson og Dan Cassidy árið 1998 undir nafninu On earth, Titill þeirrar plötu var Magical dust.

Um það leyti starfaði Marteinn með Tryggva Hansen og fleirum í Th ok seiðbandinu en síðan þá virðist hann ekki hafa komið að útgefinni tónlist.

Efni á plötum