Með nöktum (1983-87)

Með nöktum

Hljómsveitin Með nöktum var eins konar afsprengi nýbylgjurokksins á níunda áratug síðustu aldar, sveitin sendi frá sér eina sex laga plötu.

Með nöktum var stofnuð sumarið 1983 og voru meðlimir sveitarinnar í upphafi þeir Ágúst Karlsson gítarleikari, Birgir Mogensen bassaleikari og Halldór Lárusson trommuleikari en þeir höfðu allir verið viðloðandi hljómsveitina Spilafífl. Þeir fengu söngvarann Magnús Guðmundsson (Þeyr) til liðs við sig og héldu sína fyrstu tónleika um haustið. Til að byrja með lék Helgi Pétursson hljómborðsleikari með þeim á tónleikum sem aukamaður en hann var aldrei fastamaður í sveitinni.

Með nöktum var nokkuð virk sveit til að byrja með og spilaði mikið um haustið, minna fór fyrir sveitinni eftir áramótin 1983-84 en um vorið birtust þeir aftur og léku á nokkrum tónleikum í kjölfarið. Það sama ár (1984) átti sveitin lag á safnplötunni SATT 3. Lárus Grímsson hljómborðsleikari og Þorsteinn Magnússon gítarleikari léku með sveitinni á tónleikum á Þorláksmessukvöld 1984 og reyndar lék Lárus með þeim í nokkurn tíma eftir það.

Tríóið Með nöktum

Sveitin hafði byrjað að vinna að plötu haustið 1984, hún var nokkuð lengi í vinnslu en kom síðan út um sumarið 1985, þá var sveitin orðið að tríói þeirra Magnúsar, Ágústs og Halldórs en Lárus var þeim þó innan handar. Platan var sex laga og var gefin út af útgáfufyrirtækinu Mjöt sem Magnús var einn eigenda að. Hún bar titilinn Skemmtun og hlaut ágætar viðtökur gagnrýnenda, fékk t.a.m. mjög góða dóma í Æskunni og Þjóðviljanum og þokkalega í Helgarpóstinum. Með nöktum fylgdi plötuútgáfunni eftir með tónleikaferð um landsbyggðina og var þar í samstarfi við Stúdentaleikhúsið en sveitin annaðist tónlistarflutning í leiksýningu hjá leikhúsinu. Myndband með sveitinni vakti jafnframt nokkra athygli.

Með nöktum lét lítið fyrir sér fara næstu misserin, hvarf reyndar alveg af sjónarsviðinu veturinn 1986-87 en birtist þar aftur vorið 1987 og lék þá á tónleikum ásamt nýstofnaðri sveit sem bar nafnið Síðan skein sól, en það reyndist svanasöngur sveitarinnar og lognaðist hún útaf í kjölfarið.

Efni á plötum