Mjólkurstöðin [tónlistartengdur staður] (1945-53)

Mjólkurstöðin við Laugaveg

Mjólkurstöðin við Laugaveg var um skeið einn vinsælasti skemmtistaðurinn á höfuðborgarsvæðinu en Guðmundur Kristjánsson rak staðinn í umboði Mjólkursamsölunnar á efstu hæð hússins á árunum 1945 til 53, húsið var reist 1945.

Fjöldi hljómsveita lék fyrir dansi í Mjólkurstöðinni og er KK-sextettinn líkast til þekktust sveita sem þar lék en hún lék þar nýstofnuð haustið 1947. Meðal annarra hljómsveita sem léku á dansleikjum í húsinu voru Hljómsveit Steinþórs Steingrímssonar, GO-kvintettinn, Hljómsveit Árna Ísleifssonar, Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar o.fl. Almennt voru ekki vínveitingar í húsinu en það var þó reynt um tíma, þá voru veigarnar einungis afgreiddar í heilum og hálfum flöskum, annars komu dansleikjagestirnir með áfengið með sér.

Annars konar samkomur voru einnig haldnar í húsinu, skákmót, fegurðarsamkeppnir, fundir og önnur mannamót en dansleikirnar voru þó alltaf aðalmálið í Mjólkurstöðinni.

Þjóðskjalasafnið hefur verið til húsa í Mjólkurstöðvarhúsinu síðan um miðjan níunda áratuginn.