Gamlir Fóstbræður (1959-)

Gamlir Fóstbræður árið 1979

Karlakórinn Gamlir Fóstbræður (einnig stundum nefndur Eldri Fóstbræður) hefur verið starfandi um árabil og hefur verið í senn félagasskapur og kór karlmanna sem komnir eru af léttasta skeiðinu.

Svo virðist sem eldri kórfélagar hafi verið að syngja saman frá því um 1955 en Gamlir Fóstbræður voru stofnaðir formlega haustið 1959 upp, uppistaðan í kórnum voru kórfélagar úr karlakórnum Fóstbræðrum (og áður Karlakórs K.F.U.M.) sem komnir voru á aldur en vildu þó halda áfram að syngja í góðum félagsskap. Stofnun kórsins kom reyndar ekki af góðu einu saman því þáverandi stjórnandi Fóstbræðra, Ragnar Björnsson hafði vilja hreinsa út nokkrar af eldri röddum kórsins og voru ekki allir sáttir við þá ákvörðun hans, Hreinn Pálsson mun þá hafa haft frumkvæðið af því að stofnaður yrði kór eldri meðlima.

Stofnmeðlimir voru fimmtíu og fimm talsins og af þeim voru sjö sem höfðu verið í upphaflegri útgáfu Karlakórs K.F.U.M. og sungið á fyrstu tónleikum hans í Bárunni 1917. Kórinn hefur alltaf verið fjölmennur og jafnvel talið yfir hundrað manns en fjöldi kórmeðlima getur þó verið býsna misjafn.

Þessi söngdeild innan Fóstbræðra hefur lengstum verið nokkuð virk og haldið tónleika reglulega en með árunum hefur starfið jafnvel orðið enn öflugra en kórinn hefur sungið allt upp í þrjátíu sinnum á ári opinberlega, nú síðustu árin t.d. oft í kirkjustarfi og við útfarir víðar um borgina. Þá hefur kórinn margsinnis farið út á landsbyggðina til tónleikahalds og jafnvel í nokkur skipti út fyrir landsteinana, kórinn syngur því ýmist ásamt aðalkór Fóstbræðra og heldur einnig sjálfstæða tónleika. .

Gamlir Fóstbræður eru ekki einungis kór innan Fóstbræðra-samfélagsins heldur einnig klúbbur eða félagsskapur eldri söngmanna sem hefur aðstoðað við starf aðalkórs Fóstbræðra og unnið ýmis sjálfboðaliðastörf fyrir kórinn, t.a.m. við byggingu félagsheimilis kórsins auk annarra verkefna.

Í upphafi var Jón Halldórsson að öllum líkindum stjórnandi en nafni hans Jón Þórarinsson tók síðan fljótlega við keflinu og hélt um það í áratugi eða allt þar til Jónas Ingimundarson tók við haustið 1997, Jónas stjórnaði kórnum í nokkur ár áður en Árni Harðarson tók við en hann hefur haldið utan um stjórnvölinn síðustu árin.

Gamlir Fóstbræður hafa ekki gefið út plötu en kórinn hefur þó komið við sögu á að minnsta kosti einni útgefinni plötu, á plötu Baggalúts frá árinu 2009 en hún bar titilinn Sólskinið í Dakota.