Fjórtán Fóstbræður (1963-75)

Fjórtán Fóstbræður

Fjórtán Fóstbræður skipa mun stærri sess í íslenskri tónlistarsögu en flestir gera sér grein fyrir, ekki aðeins fyrir það að marka upphaf SG-hljómplötuútgáfunnar en útgáfan varð til beinlínis stofnuð fyrir tilstilli Fóstbræðra heldur einnig fyrir að fyrsta platan þeirra var um leið fyrsta danslagabreiðskífan sem gefin var út á Íslandi og hafði einnig að geyma fyrsta plötuumslag breiðskífu sem prentað var hérlendis. Þá má heldur ekki gleyma að kórinn varð fyrstur kóra hér á landi að syngja lög í léttari kantinum og ruddi þannig leið fyrir slíka tónlist auk þess sem hann höfðaði þá til flestra aldurshópa og naut þ.a.l. gríðarmikilla vinsælda.

Það var Svavar Gests sem á heiðurinn af því að Fjórtán Fóstbræður urðu til. Hann hafði stjórnað skemmtiþáttum í Ríkisútvarpinu um nokkurt skeið og þegar stofnunin fór þess á leit við hann síðsumars 1963 að stýra nýjum þess konar þætti flaug honum í hug að hafa í honum karlakór í anda kórs Mitch Miller en Svavar hafði mikið dálæti á honum. Í því skyni leitaði hann til karlakórsins Fóstbræðra sem þá söng undir stjórn Ragnars Björnssonar, til að fá „lánaðar“ nokkrar raddir til að syngja í þættinum sem hafði fengið nafnið Sunnudagskvöld með Svavari Gests.

Lánið á söngmönnunum var auðsótt mál og Magnús Ingimarsson sem var píanóleikari og útsetjari Hljómsveitar Svavars Gests valdi ásamt Þorsteini R. Helgasyni Fóstbróður fjórtán söngmenn til verkefnisins. Ástæðan fyrir tölunni fjórtán ku hafa verið að upptökusalur Ríkisútvarpsins rúmaði ekki fleiri.

Svavar valdi efni til flutnings og úr varð að syrpur með þekktum dægurlögum þess tíma urðu fyrir valinu en hljómsveit Svavars sá um undirleik, Magnús annaðist útsetningarnar og svo fór fyrsti þátturinn í loftið. Hann sló í gegn og kórinn sem kallaðist bara Nokkrir félagar úr karlakórnum Fóstbræðrum varð strax mjög vinsæll, það var svo að loknum öðrum eða þriðja þætti að hópurinn hlaut nafnið Fjórtán Fóstbræður.

Fjórtán Fóstbræður voru lengst af fjórtán eins og nafnið gefur til kynna en einhverjar mannabreytingar urðu þó á hópnum þann tíma sem hann starfaði, alls munu um tuttugu manns hafa verið Fjórtán Fóstbræður og þeir sem Glatkistan hefur upplýsingar um eru eftirfarandi: Aðalsteinn Guðlaugsson, Árni Eymundsson, Ásgeir Hallsson, Björn J. Emilsson, Einar Geir Þorsteinsson, Einar H. Ágústsson, Garðar Jökulsson, Hákon Oddgeirsson, Hjörtur Hjartarson, Jóhann A. Guðmundsson, Jón Vigfússon, Magnús G. Erlendsson, Magnús Guðmundsson, Ólafur Stephensen, Ragnar Magnússon, Sigurður Jóelsson, Sigurður Símonarson, Sveinn Pálsson og Þorsteinn R. Helgason.

Alls urðu þættirnir Sunnudagskvöld með Svavari Gests veturinn 1963-64 sextán talsins og nutu mikilla vinsælda sem og kórsöngurinn, um vorið 1964 hugkvæmdist Svavari að sniðugt væri að gefa söng kórsins út á plötu og leitaði því til Tage Ammendrup en hann hafði þá rekið hljómplötuútgáfuna Íslenzka tóna um árabil. Tage svaraði því hins vegar til að hann væri að hætta með útgáfuna og stakk upp á að Svavar gæfi sjálfur út plötuna, lét hann hafa upplýsingar um plötupressu í Noregi og þar með hófst útgáfuferill Svavars Gests.

Fjórtán Fóstbræður við upptökur

Hlutirnir gengu hratt fyrir sig og fyrsta upplagið kom út um sumarið, Kassagerð Reykjavíkur sá um prentun umslagsins en það var í fyrsta sinn sem umslag breiðskífu var prentað hérlendis. Hún var um leið fyrsta stóra platan sem hafði að geyma léttari lög en ekki er hægt að flokka tónlistina öðruvísi – rútubíla- eða brekkusöngvar sungnir af karlakór.

Platan sem hlaut titilinn Syngið með: Lagasyrpur úr útvarpsþættinum „Sunnudagskvöld með Svavari Gests“ sló samstundis í gegn og seldist strax upp, nýtt upplag var pantað til landsins og síðan það þriðja sem seldust jafnharðan upp. Þetta þótti sæta tíðindum og eigandi norsku plötupressunnar heimsótti Svavar til að líta hann augum en platan hafði þá selst mun meira en plötur almennt í Noregi sem hafði þó mun stærri markað að bera. Þessi mikla plötusala varð Svavari Gests hvatning til að gefa út fleiri plötur og næstu tvo áratugina átti hann eftir að gefa út plötur í hundraða tali.

Önnur plata með kórnum kom út sumarið 1965 og var uppskriftin hin sama, syrpur með þekktum dægurlögum en gestur á þeirri plötu var Elly Vilhjálms söngkona og eiginkona Svavars, platan bar þ.a.l. titilinn Fjórtán Fóstbræður ásamt Elly Vilhjálms og Hljómsveit Svavars Gests. Þessi plata eins og hin fyrri kom út nokkrum sinnum og til eru að minnsta kosti tvær mismunandi gerðir af umslagi hennar reyndar eins og títt var um plötur hjá SG-hljómplötum.

Með þessari plötu skildu leiðir Fjórtán Fóstbræðra og Svavars Gests en kórinn starfaði áfram undir dyggri stjórn Magnúsar Ingimarssonar. Þeir Fóstbræður höfðu komið fram í nokkur skipti opinberlega utan útvarpsþáttanna og héldu því nú áfram, kórinn söng á hvers kyns skemmtunum og komu t.d. fram á söngskemmtunum og tónleikum Karlakórsins Fóstbræðra, einnig má í þessu samhengi nefna kosningasamkomur stjórnmálaflokkanna og svo skemmtanir tengdum báðum frambjóðendum fyrir forsetakosningarnar 1968, Gunnari Thoroddsen og Kristjáni Eldjárn. Þá söng kórinn oft í útvarpi og svo sjónvarpinu þegar það kom til sögunnar 1966, jafnvel á dansleikjum. Eitthvað var misjafnt hvaða hljómsveitir léku undir með þeim félögum en hljómsveitir Ragnars Bjarnasonar og svo auðvitað Magnúsar Ingimarssonar komu þar eitthvað við sögu. Hluti kórsins söng svo ásamt Þjóðleikhúskórnum í sýningu á söngleiknum Járnhausnum en allar tekjur Fjórtán Fóstbræðra runnu til byggingu félagsheimilis Fóstbræðra sem þeir tóku síðar í notkun við Langholtsveg.

Fjórtán Fóstbræður störfuðu við nokkrar vinsældir allt til ársins 1975 en þá um páskana fór hópurinn í skemmtiferð ásamt eiginkonum til London og var þá tækifærið notað til að hljóðrita nýjar syrpur en nokkur eftirspurn hafði þá verið eftir nýju efni um tíma. Í því skyni stofnaði kórinn eigin plötuútgáfu sem bar nafn kórsins og það sama sumar (1975) kom út plata undir heitinu 14 Fóstbræður. Átta syrpur voru á þeirri plötu eins og annarri plötu sem kom út ári síðar (1976) og bar reyndar sama nafn og hin fyrri – 14 Fóstbræður, sú plata hafði einnig verið tekin upp í Lundúna-ferðinni undir stjórn Magnúsar sem einnig annaðist útsetningar og hljómsveitarstjórn en Jakob Magnússon sá um öll tengsl við hljóðver og pressun í Englandi  en hann var þá búsettur þar. Reyndar munu Fóstbræðurnir hafa verið sextán talsins við upptökur á þessum plötum en ekki fjórtán.

Fjórtán Fóstbræður og makar

Fóstbræðurnir fylgdu fyrri plötunni nokkuð eftir með tónleikahaldi sumarið og haustið 1975, platan fékk ágæta dóma í Þjóðviljanum en gagnrýnandi Tímans þótti platan fremur slök og þótti efnið tilþrifalítið og einhæft. E.t.v. var það ástæðan fyrir því að kórinn hætti fljótlega störfum eftir það og þegar síðari platan kom út ári síðar var kórinn hættur. Reyndar virðist hafa verið gerð einhvers konar tilraun til að endurvekja hann árið 1988 og söng kórinn þá í nokkrum skemmtunum undir stjórn Gylfa Gunnarssonar.

Þótt Fjórtán Fóstbræður hafi ekki starfað síðan 1975 hefur kórinn eða afsprengi hans stöku sinnum komið fram opinberlega og sungið, það á t.a.m. við um afmæli Karlakórsins Fóstbræðra árin 1986, 1996 og 2016 sem og á afmæli Magnúsar Ingimarssonar 1993. Eðli málsins samkvæmt hefur ekki verið um sama mannskap að ræða síðustu árin þótt hluti hópsins hafi vissulega verið þar á ferð, árið 2016 voru t.d. aðeins sex liðmenn gamla kórsins í afmælisútgáfu hans sem Árni Harðarson stjórnaði. Þess má einnig geta að Karlakórinn Fóstbræður hefur einstöku sinnum tekið léttlaga-syrpur að hætti Fjórtán Fóstbræðra á tónleikum sínum.

Plöturnar tvær sem Svavar Gests gaf út með Fjórtán Fóstbræðrum 1964 og 65 höfðu lengi verið ófáanlegar og því var kjörið að endurútgefa þær á tvöföldu albúmi árið 1984 þegar SG-hljómplötur fögnuðu 20 ára afmæli, það albúm bar einfaldlega heitið Fjórtán Fóstbræður. Þrettán ár liðu þar til næsta safnplata kom út en þá gaf Skífan út plötuna 13 sígildar söngvasyrpur en á þeirri plötu var að finna þrettán af þeim sextán syrpum sem komið höfðu út á plötunum tveimur 1975 og 76, hún var jafnframt fyrsta plata þeirra félaga sem kom út á geisladisk. Upptökurnar höfðu verið hreinsaðar fyrir endurútgáfuna og það átti einnig við um tvöfalda safnplötu sem Skífan gaf út árið 2000 undir undirmerkinu Íslenskir tónar en sú plata hafði að geyma fyrstu plöturnar tvær frá 1964 og 65, reyndar höfðu frumsegulböndin ekki fundist af fyrri plötunni.

Lög Fjórtán Fóstbræðra hafa ekki komið út á mörgum safnplötum í gegnum tíðina enda henta slíkar langar lagasyrpur illa á þess konar plötur, safnplöturnar Melónur og vínber fín (1998), Jón Múli Árnason: Söngdansar og ópusar (2011), SG hljómplötur: 75 bráðskemmtileg dægurlög frá 1964 – 1982 (2014) og Stóra bílakassettan-serían (1980) eru þó dæmi um slíkar útgáfur.

Fjórtán Fóstbræður eru fólki komið yfir fertugt enn í fersku minni enda heyrast reglulega spilaðar syrpur þeirra á stöðvum Ríkisútvarpsins og jafnvel víðar.

Efni á plötum