Fjallkonan (1994-96)

Fyrsta útgáfa Fjallkonunnar

Hljómsveitin Fjallkonan starfaði í á annað ár um miðbik tíunda áratugar síðustu aldar, hún sendi frá sér eina breiðskífu og nutu tvö lög hennar nokkurra vinsælda.

Það var hljómborðsleikarinn og þúsundþjalasmiðurinn Jón Ólafsson sem kallaði til nokkra tónlistarmenn síðsumars 1994 og stofnaði Fjallkonuna, það voru Stefán Hjörleifsson gítarleikari og fóstbróðir Jóns til margra ára í bransanum, Pétur Örn Guðmundsson ungur og efnilegur söngvari sem einnig greip í bassa, gítar og fleiri hljóðfæri er þurfti, Margrét Sigurðardóttir söngkona, hljómborðs- og gítarleikari sem m.a. hafði sigrað Söngkeppni framhaldsskólanna, og Hjörleifur Jónsson trommuleikari. Jóhann Hjörleifsson tók fljótlega við af Hjörleifi og einnig bættist Róbert Þórhallsson bassaleikari í hópinn en sveitin hafði fram að því verið án sérstaks bassaleikara.

Fjallkonan var fljótlega ráðin sem húshljómsveit í Þjóðleikhúskjallaranum og lék þar fram á vorið 1995 auk annarra tilfallandi verkefna, þá hafði sveitin þegar lagt drög að útgáfu plötu en þegar meðlimir sveitarinnar fengu það verkefni að kom að tónlistarflutningi í söngleiknum Súperstar í Borgarleikhúsinu undir stjórn Jóns seinkaði þeirri vinnu. Margrét kom  ekki við sögu þar enda hafði hún hætt í Fjallkonunni um vorið.

Fjallkonan

Plötuupptökur fóru þó fram um sumarið 1995 og þar lögðu þeir Jón, Stefán og Pétur Örn lög og texta í púkkið en Bergur Þór Ingólfsson og Þorsteinn Eggertsson komu einnig að textagerð. Platan kom síðan út um haustið undir nafninu Partý og þá var sveitin aftur komin á fullan skrið og lék nú orðið töluvert á dansleikjum á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni reyndar einnig. Tvö lög plötunnar slógu nokkuð í gegn, annars vegar Bömpaðu baby, bömpaðu sem Emilíana Torrini söng með þeim félögum sem gestasöngvari, hins vegar Út í heim þar sem Fjallkonan naut liðsinnis þeirra Eggerts Þorleifssonar og Rósu Ingólfsdóttur.

Partý sem var gefin út af hljómsveitinni sjálfri hlaut heldur misjafnar undirtektir gagnrýnenda, allt frá fremur slökum dómi í DV og sæmilegum í Helgarpóstinum og Morgunblaðinu, og til ágætra dóma í Tímanum og Degi. Plötunni var fylgt nokkuð eftir með tónleikahaldi þar sem Emilíana Torrini og Páll Óskar tróðu upp ásamt Fjallkonunni með eigin efni en þetta haust voru óvenju fáar íslenskar plötur með frumsömdu efni á boðstólum í jólaplötuflóðinu. Fjallkonan lék á áramótadansleik um áramótin 1995-96 en virðist síðan hafa verið lögð niður og liðsmenn sveitarinnar sneru sér að öðrum verkefnum í kjölfarið.

Lagið Bömpaðu, baby bömpaðu hefur m.a. ratað á safnplöturnar Ávextir (1996) og Með von í hjarta (2001), og hefur þannig haldið nafni sveitarinnar á lofti en lagið heyrist enn reglulega spilað á ljósvakamiðlum.

Efni á plötum