Fóstbræður [1] (1905-14)

Fóstbræður

Söngkvartettinn Fóstbræður starfaði í um það bil áratug í byrjun síðustu aldar og skemmti á ýmis konar söngskemmtunum í Reykjavík.

Fóstbræður munu hafa verið stofnaðir 1905 en heimildir eru afar takmarkaðar um sögu kvartettsins fyrstu árin. Á árunum eftir 1910 voru söngskemmtanir kórsins tíðar og oftar en ekki sungu þeir félagar í góðgerðaskyni, kvartettsöngurinn var auðvitað mest áberandi en einnig sungu þeir glúntasöngva (tvísöng) og einsöngslög.

Meðlimir alla tíð voru að öllum líkindum þeir Viggó Björnsson (fyrsti bassi), Pétur Halldórsson (annar bassi), Einar Viðar Indriðason (fyrsti tenór) og Jón Halldórsson (annar tenór). Þeir Pétur og Jón voru bræður og urðu síðar fyrirferðarmiklir í þjóðfélaginu, Pétur sem bóksali og borgarstjóri svo dæmi séu tekin auk þess sem hann kom að stofnun 17. júní kórsins og Jón sem söngstjóri Karlakórs KFUM og síðar Fóstbræðra til margra ára en nafn síðarnefnda kórsins var sótt beint til Fóstbræðra-kvartettsins. Einar var náfrændi þeirra bræðra en þeir voru allir barnabörn Péturs Guðjohnsen fyrsta organista Dómkirkjunnar svo þeim var tónlistin í blóð borin.

Fóstbræður störfuðu til ársins 1914.