Gestur Þorgrímsson (1920-2003)

Gestur Þorgrímsson

Gestur Þorgrímsson var fjölhæfur listamaður og kom víða við í sköpun sinni, meðal viðfangsefna hans var tónlist og liggur ein útgefin tveggja laga plata með söng hans.

Gestur fæddist í Laugarnesinu í Reykjavík árið 1920 og var reyndar oft kenndur við Laugarnesið. Hann nam höggmyndalist, fyrst við Myndlista- og handíðaskólann í Reykjavík en síðar við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn.

Gestur varð þekktur myndalistamaður, hélt fjölda sýninga og kenndi högg- og myndlist á öllum skólastigum frá grunnskóla og upp í háskóla, þá rak hann leirkerasmiðju um tíma, starfaði við fararstjórn, ritaði endurminningar í formi skáldsögu og annaðist þáttagerð í útvarpi.

En Gestur var einnig skemmtikraftur og söngmaður, hann söng á yngri árum með Samkór Reykjavíkur og karlakórnum Þröstum í Hafnarfirði og mun hafa sungið einsöng með fyrrnefnda kórnum svo dæmi séu tekin. Hann söng einnig einn síns liðs á hvers kyns skemmtunum, m.ö.o. var hann gamanvísnasöngari eins og þeir kölluðust þá en hann var jafnframt stundum kynntur sem dægurlagasöngvari, Gestur þótti snjall eftirherma og hermdi eftir þekktum einstaklingum s.s. söngvurum en þótti einnig öðrum fremri í að herma eftir hljóðfæraslætti. Þannig var hann vinsæll skemmtikraftur og naut mikilla vinsælda sem kynnir og við önnur slík tilfallandi slík störf um áratugar skeið, á árunum 1953-63.

Ein plata kom út með söng hans, tveggja laga 78 snúninga platan Á Lækjartorgi / Rómeó og Júlía þar sem hann söng gamanvísur við undirleik hljómsveitar Magnúsar Péturssonar. Fyrrnefnda lagið varð mjög vinsælt og heyrist enn stöku sinnum leikið í útvarpi allra landsmanna. Tónika, útgáfufyrirtæki Svavars Gests og Kristjáns Kristjánssonar gaf plötuna út.

Gestur Þorgrímsson lést í upphafi árs 2003, þá áttatíu og tveggja ára gamall.

Efni á plötum