Andlát – Ragnar Bjarnason (1934-2020)

Ragnar Bjarnason

Stórsöngvarinn Ragnar Bjarnason (Raggi Bjarna) er látinn, á áttugasta og sjötta aldursári.

Nafn Ragnars telst vera eitt af þeim stærstu í íslenskri tónlistarsögu, hann sendi frá sér á fjórða tug smáskífna og fimmtán breiðskífur á ferli sínum og nutu mörg laga hans mikilla vinsælda og hafa orðið sígild. Meðal þeirra má nefna lög eins og Vertu að ekki að horfa svona alltaf á mig, Rokk og cha cha cha, Síðasti vagninn í Sogamýri, Ég er kokkur á kútter frá Sandi, Vorkvöld í Reykjavík, Ship-o-hoj, Heyr mitt ljúfasta lag, Komdu í kvöld, Skvetta, falla, hossa og hrista, Barn, Útlaginn, Út í Hamborg, Föðurbæn sjómannsins, Laus og liðugur, Flottur jakki, Þannig týnist tíminn og Allir eru að fá sér. Af þessari upptalningu má sjá hversu farsæll söngferill Ragnars var en söngvarinn starfaði jafnframt með mörgum af vinsælustu danshljómsveitum landsins á sínum tíma s.s. Hljómsveit Svavars Gests, KK-sextettnum og Sumargleðinni auk þess að starfrækja eigin sveit á Hótel Sögu um árabil, þá er samstarf hans við Elly Vilhjálms vel þekkt.

Með Ragnari er farinn einn af fremstu dægurlagasöngvurum þjóðarinnar en hann er af fyrstu kynslóð slíkra hér á landi og þá um leið einn fyrsti rokksöngvari Íslands.

Nánar má lesa um feril Ragnars Bjarnasonar hér.