RSD tríóið (1950)

engin mynd tiltækRSD tríóið er klárlega ekki þekktasta tríóið sem Ragnar Bjarnason söngvari starfaði með en það var með fyrstu eiginlegu hljómsveitum sem hann starfaði með, en varð reyndar ekki langlíft.

Vorið 1950 stofnaði Ragnar tríóið, sem auk hans skipuðu Sigurður Þ. Guðmundsson (Siggi kanslari) sem lék á harmonikku og Andrés Ingólfsson klarinettuleikari. Sjálfur lék Ragnar á trommur en þremenningarnir voru þá kornungir. Þeir félagarnir höfðu reyndar eitthvað spilað saman sem skólahljómsveit í Ingimarsskóla en sveitin hlaut ekki nafn fyrr en um vorið. Þeir voru þá líklega allir á sextánda ári.

Í ævisögu sinni, Lífssaga Ragga Bjarna, segir Ragnar frá því þegar þeir félagarnir léku á dansleik úti á landi í einhverju ótilgreindu sjávarplássi þetta sumar. Eitthvað voru þeir uppteknir af dömunum í bænum, tóku sér pásu einn og einn í einu til að dansa við dömurnar, og á tímapunkti dansleiksins lék Andrés einn á klarinettuna á meðan Ragnar og Sigurður vönguðu við sína hvora stúlkuna við fremur miklar óvinsældir heimamanna af karlkyni. Enduðu leikar með því að hljómsveitin var hálf flæmd af staðnum. Ragnar endaði frásögn sína á því með því að segja tríóið það eina í heiminum sem stundum hefði aðeins einn hljóðfæraleikara.

RSD tríóið var sem fyrr segir fremur skammlíft og lifði aðeins þetta eina sumar.