Ragnar Bjarnason (1934-2020)

Ragnar Bjarnason

Ragnar Bjarnason

Ragnar Baldur Bjarnason (f. 1934) er einn ástsælasti dægurlagasöngvari íslenskrar tónlistarsögu. Hann var sonur Bjarna Böðvarssonar og hlaut tónlistina beint í æð en Bjarni rak eigin hljómsveit um árabil. Móðir Ragnars, Lára Magnúsdóttir var ennfremur dægurlagasöngkona, líklega ein sú allra fyrsta hér á landi.

Tónlistarferill Ragnars hófst reyndar á því að hann lék á trommur með hljómsveitum mjög ungur að árum, fyrst með föður sínum (frá þrettán ára aldri) en síðan lék hann t.a.m. með RSD tríóinu laust eftir 1950 og enn síðar hljómsveitum Stefáns Þorleifssonar og Rúts Hannessonar um nokkurra mánaða skeið. Að því loknu sneri hann sér að sönglistinni, fyrst sem söngvari ónefnds tríós og dixielandsveitarinnar Allir edrú en síðan var hann ráðinn trommuleikari í Hljómsveit Árna Ísleifssonar á Röðli og hóf skömmu síðar að syngja með sveitinni. Í framhaldinu gekk hann til liðs við Hljómsveit Svavars Gests en staldraði stutt við og í KK-sextettinn 1956 þar sem hann söng ásamt Sigrúnu Jónsdóttur og síðar Ellyju Vilhjálms.

Fyrsta platan sem Ragnar söng inn á kom út 1954 og var tveggja laga plata með lögunum Í faðmi dalsins og Í draumi með þér, á þeirri plötu lék KK sextettinn undir. Fyrrnefnda lagið var verðlaunalag Bjarna Gíslasonar við texta Guðmundar Þórðarsonar, úr danslagakeppni SKT. Áður hafði hann reyndar sungið inn á lakkplötu og segir sagan að Bjarna föður Ragnars hefði ekki þótt mikið til koma og ráðlagt honum að syngja ekki aftur inn á plötu á næstunni.

Þrátt fyrir það var ekki aftur snúið og önnur plata leit dagsins ljós þar sem hann söng ásamt Ingibjörgu Þorbergs, stuttu síðar kom út önnur tveggja laga plata (Anna / Anna í Hlíð) með söng hans, en nú við undirleik hljómsveitar Ólafs Gauks, og enn önnur þar sem Sigrún Jónsdóttir söng með honum undir leik Hljómsveitar Árna Ísleifs, Sigrún átti eftir að syngja með honum aftur á plötu 1957.

Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar

Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar

Á næstu árum áttu eftir að koma út fjölmargar tveggja laga plötur, ein slík kom út 1955 og lög hennar flokkast undir sjómannalög en á þeirri plötu lék tríó Eyþórs Þorlákssonar undir, einnig komu út plötur 1958 með lögunum Lína segir stopp / Síðasti vagninn í Sogamýri og Líf og fjör / Tequila en lagið Líf og fjör er sama lag og lagið Lóa litla á Brú sem Haukur Morthens söng inn á plötu og gaf út um svipað leyti. Varð af því reyndar nokkur eltingarleikur milli plötuútgáfanna, um hvor platan kæmi út á undan, því vinsældir laganna gætu ráðist af því. Því fór líka svo að í það skiptið varð Lóa litla á Brú ofan á. Það breytir því ekki að Ragnar var þegar hér var komið sögu orðinn vel þekktur dægurlagasöngvari enda var hann þá söngvari í KK sextettnum. Hann söng einnig inn á fjögurra laga plötu ásamt Guðbergi Auðunssyni um þetta leyti.

1959 hætti Ragnar í KK-sextettnum og gekk í Hljómsveit Björns R. Einarssonar, reyndar líkt og tveir aðrir meðlimir sveitarinnar. Hann staldraði þó fremur stutt við í þeirri sveit og haustið 1960 gekk Ragnar til liðs við hljómsveit Svavars Gests en það sama ár kom út hver stórsmellurinn á fætur öðrum, Rock og cha cha cha, Komdu í kvöld, Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig, Hún var með dimmblá augu og Ég er kokkur á kútter frá Sandi nutu öll mikilla vinsælda en þau voru tekin upp í Kaupmannahöfn við undirleik hljómsveitar Birger Arudzen og í Stokkhólmi við undirleik hljómsveitar Arvid Sundin, allar voru þær gefnar út af Íslenzkum tónum. Plöturnar sem teknar voru upp í Svíþjóð höfðu þá sérstöðu að vera pressaðar í mismunandi litum.

Ragnar sýndi þetta ár á sér nýja hlið en hann samdi sjálfur lagið Rock og cha cha cha og hefur nokkrum sinnum eftir það sýnt þá sköpunarhæfileika sína. Lagið Komdu í kvöld var fyrsta lagið sem Jón Sigurðsson „bankamaður“ samdi, aðeins fimmtán ára gamall. Segja má að 1960 sé árið hans Ragnars en aukinheldur var hann kjörinn vinsælasti söngvari ársins af vikublaðinu Ásnum.

Næstu árin héldust vinsældir hans, 1962 komu t.d. út smáskífur með lögunum Ship-o-hoj, Nótt í Moskvu, Heyr mitt ljúfasta lag og Vertu sæl mey en það ár var hann kjörinn vinsælasti söngvari ársins af tímaritinu Vikunni. Hljómsveit Svavars Gests, sem hann söng með, var ennfremur kosin vinsælasta hljómsveitin, Ragnar söng með sveitinni í um eitt og hálft ár í þetta skiptið.

Ragnar Bjarnason11

Ragnar Bjarnason

Þótt söngferillinn gengi vel var Ragnar farinn að misnota áfengi meira en góðu hófi gegndi og leiddi það m.a. til hjónaskilnaðar hans og þáverandi eiginkonu 1962. Hann sá að þetta gengi ekki lengur, hætti í Hljómsveit Svavars Gests og skömmu síðar fluttist hann til Danmerkur, þar starfaði hann í ónefndri sveit um skeið í Horsens áður en hann hóf að spila með sveit í Noregi. Með báðum þessum sveitum lék Ragnar á trommur. Einnig lék hann í sveitum í Finnlandi og Danmörku áður en hann sneri aftur til Íslands, nýr maður með nýja konu.

Þegar Ragnar kom aftur heim 1964 gekk hann til liðs við Svavar Gests á nýjan leik (í þriðja skiptið) og söng með sveitinni til lok sumars 1965 þegar hún hætti störfum en Svavar sneri sér þá alfarið að plötuútgáfu. Alls var Ragnar með Svavari í um fjögur ár en þetta síðasta ár naut sveitin gríðarlegra vinsælda á böllunum, í endurminningum Ragnars segir t.d. frá því að 1340 manns hafi borgað sig inn á ball með sveitinni í Aratungu, aðsókn var því mikil á böllin.

Íslenzkir tónar höfðu haldið áfram að gefa út tónlist Ragnars og 1963 komu út þrjár smáskífur, þar af ein sem hafði að geyma fjögur limbó lög en það ár gekk mikið limbó-dansæði yfir landann. Árið eftir (1964) komu tvær litlar plötur til viðbótar út áður en jólaplatan Hvít jól kom út en á þeirri fjögurra laga plötu sungu þau Elly Vilhjálms jólalög. Það var fyrsta platan sem Svavar Gests gaf út og naut svo mikilla vinsælda að hún var gefin út þrisvar sinnum, og það þarf ekki að taka það fram að lög plötunnar eru löngu orðin sígild. Samstarf þeirra Ellyjar átti eftir að vara áfram en árið 1965 komu út þrjár litlar plötur með þeim. Á meðal þeirra laga má nefna Útlagann og lögin Við heimtum aukavinnu og Sjómenn íslenzkir erum við, sem hann söng reyndar með Ómari Ragnarssyni. Þau lög eru úr söngleiknum Járnhausnum eftir bræðurna Jónas og Jón Múla Árnasyni.

Ragnar stofnaði eigin hljómsveit 1965 eftir að samstarfinu við Svavar Gests lauk en sú sveit átti eftir að starfa til ársins 1984, mest í Súlnasal Hótels Sögu en einnig spilaði sveitin úti á landi, t.a.m. á héraðsmótum nokkur sumur.

Plöturnar héldu áfram að koma út með söng Ragnars og þar var hvergi slegið af, fjögurra laga plata kom út á vegum Svavars Gests 1967 með lögum eftir Þórunni Franz en á þeirri plötu var að finna tvö texta eftir sr. Árilíus Níelsson, brot úr öðrum þeirra, Föðurbæn sjómannsins varð síðar þekkt í meðferð Tómasar Tómassonar í Þursaflokknum þegar hann rumdi „Kæri sonur, hafið býr yfir hundrað hættum en mundu að pabbi þinn flytur þér hljóða bæn yfir sæinn“.

Árið eftir (1968) kom út lagið Úti í Hamborg sem Ragnar söng með Jóni Sigurðssyni bassaleikara en það naut mikilla vinsælda. Það lag er reyndar eftir hinn Jón Sigurðsson (bankamann) og var úr revíunni Úr heiðskíru lofti.

Fleiri smáskífur komu út á þessum árum en það var ekki fyrr en 1971 sem fyrsta breiðskífa Ragnars kom út, hún bar nafn Ragnars. Lögin valdi hann sjálfur en svo hafði aldrei verið um þær fjölmörgu smáskífur sem hann hafði sungið inn á. Flest laganna voru erlend við texta Iðunnar Steinsdóttur en einnig var þarna að finna lagið Barn sem Ragnar samdi sjálfur við ljóð Steins Steinarr, það lag átti hann eftir að syngja aftur löngu síðar, þá með Björgvini Halldórssyni. Fimmtán manna hljómsveit lék undir á plötunni undir stjórn Jóns Sigurðssonar en Pétur Steingrímsson tók hana upp.

1972 var sumarverkefninu Sumargleðinni startað og átti hún eftir að starfa til ársins 1986 en Ragnar hélt utan um það verkefni, auk hans var þar að finna fjölmarga kunna tónlistarmenn og skemmtikrafta í þeim hópi, má t.d. nefna Ómar Ragnarsson, Magnús Ólafsson, Hermann Gunnarsson, Bessa Bjarnason, Carl Möller o.fl. Sumargleðin mun hafa skemmt og spilað á yfir sex hundruð skemmtunum og böllum meðan hún starfaði. Einnig var nóg að gera hjá hljómsveit Ragnars, og fyrir utan verkefni hér innan lands átti hann eftir að syngja töluvert utan lands, t.d. á söngskemmtunum hjá íslendingafélögum í Bandaríkjunum og víðar. Samhliða þessum tónlistarverkefnum starfaði Ragnar við ýmislegt annað s.s. bílasölu og leigubílaakstur, svo eitthvað sé nefnt, en hann var alltaf mikill bílaáhugamaður.

Sumargleðin 1986

Sumargleðin 1986

Margar skemmtilega sögur eru til af Ragnari frá þessum árum og ein þeirra segir svo frá að hann hafi verið staddur á Flórída með eiginkonu sinni í fríi þegar hann synti yfir á næstu strönd sem þar var. Kom hann beint upp úr sjónum og upp á svið þar sem hljómsveit var að spila, taldi inn í lagið Blue spanish eyes og söng það. Að því loknu steig hann af sviðinu, og í sjóinn aftur og synti í burtu við mikla undrun áhorfenda. Fjöldinn allur af slíkum sögum er að finna í bók Eðvarðs Ingólfssonar, Lífssögu Ragga Bjarna söngvara og spaugara, sem út kom 1992.

Önnur stóra plata Ragnars kom út 1976 en á þeirri plötu söng Þuríður Sigurðardóttir með honum lög eftir Jónatan Ólafsson, frænda Þuríðar. Þuríður starfaði einmitt með Ragnari í Sumargleðinni en auk þess var hún um tíma í hljómsveit Ragnars á Sögu. Platan naut vinsælda eins og aðrar plötur Ragnars.

Þótt einkennilegt megi kannski virðast kom ekki út plata með Ragnari aftur fyrr en nítján árum síðar, 1995. Þá kom út Heyr mitt ljúfasta lag en það var safnplata með lögum hans sem höfðu komið út á litlum plötum á árunum 1960 – 71. Ragnar var þegar hér er komið sögu, orðinn 61 árs gamall og má segja að þá hafi síðara skeið hans á plötumarkaðnum hafist.

Þótt Ragnar hefði verið duglegur að koma fram opinberlega og syngja hafði hann vissulega ekki dælt út plötunum síðustu árin en 1999 kom síðan út platan Við bjóðum góða nótt en á henni var að finna nær eingöngu erlend lög, uppáhalds lög sem hann söng ásamt hljómsveit Ástvalds Traustasonar, sem einnig útsetti. Upptökurnar fóru fram í upptökusal FÍH og tileinkaði Ragnar foreldrum sínum plötuna en titillagið var einmitt samið af föður hans. Platan hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu.

Önnur plata kom út 2003 en það var platan Vertu ekki að horfa, hún var endurútgefin árið eftir í afmælisútgáfu en Ragnar varð þá sjötugur. Gunnar Smári Helgason stjórnaði upptökum á plötunni en upptökur fóru fram í hljóðveri FÍH, hún hlaut gríðarlega góðar viðtökur og seldist vel (varð meðal söluhæstu platna ársins 2004), hún fékk ennfremur góða dóma í Morgunblaðinu og í Popplandi á Rás 2.

Enn hélt Ragnar áfram að senda frá sér plötur þótt kominn væri á áttræðisaldur, 2005 kom út platan Raggi Bjarna með hangandi hendi en á þeirri plötu var að finna íslensk og erlend lög, ný og gömul, flest við texta Kristjáns Hreinssonar. Platan var tileinkuð minningu Stefáns Jóhannssonar trommuleikara sem lék með Ragnari um árabil. Hún fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu.

2006 kom út platan Vel sjóaður en á henni var að finna sjómannalög, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og Þórir Úlfarsson önnuðust upptökur á plötunni sem fékk eins og áður ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Árið eftir (2007) hlaut Ragnar útnefninguna borgarlistamaður Reykjavíkur en um haustið kom út jólaplatan Gleðileg jól, sú fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu.

Lögin sem aldrei mega gleymast varð næsta plata en hún kom út 2008, á henni var að finna gömul lög sem aðrir söngvarar höfðu sungið. Platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu líkt og aðrar plötur Ragnars í seinni tíð.

Ári síðar kom út þreföld safnplata, Komdu í kvöld, en hún hafði að geyma lög frá ferli hans sem nú spannaði yfir hálfa öld, 1953-2009. Og ekki var Ragnar hættur, í tilefni af 75 ára afmæli sínu (2009) hélt hann viðamikla afmælistónleika með fjöldann allan af gestum, sem síðar voru gefnir út á tvöfaldri plötu og dvd. Sú plata hlaut gríðargóðar viðtökur og frábæra dóma til að mynda í Morgunblaðinu. 2012 kom síðan út platan Dúettar þar sem Ragnar, aðeins 78 ára gamall, söng dúetta með ýmsum þekktum söngvurum. Mörg laganna urðu vinsæl s.s. Þannig týnist tíminn sem hann söng með Lay Low, Syngdu fyrir mig (með Eivöru Pálsdóttur), Froðan sungið af Ragnari og Jóni Jónssyni og Can‘t walk away með Birni Jörundi Friðbjörnssyni. Fyrst talda lagið var kjörið „óskalag þjóðarinnar“ í samnefndum þáttum Ríkissjónvarpsins haustið 2014. Platan fékk ennfremur ágæta dóma í Fréttablaðinu og DV. Með fyrstu 2500 eintökunum fylgdi dvd-diskur sem hafði að geyma heimildamyndina Með hangandi hendi, sem gerð hafði verið um kappann.

Og enn var söngvarinn hvergi nærri hættur, 2013 kom platan Falleg hugsun út, en á henni söng Ragnar ný lög eftir ýmsa höfunda, platan varð hvergi til að draga úr vinsældum söngvarans og fékk hvarvetna fína dóma. Lagið Það styttir alltaf upp sló í gegn og var mikið spilað á útvarpsstöðvunum. Plötuna vann Ragnar með Jóni Ólafssyni, sem hafði einnig unnið Dúetta með honum og reyndar hafði það samstarf gengið lengra aftur í tímann.

Í tilefni áttræðis afmælis Ragnars kom út þreföld safnplata árið 2014, og bar hún heitið 80 ára. Sena gaf plötuna út eins og aðrar plötur söngvarans frá árinu 2008.

Árið 1988 hafði Ragnar stofnað hljómsveitina Smelli og starfaði hún um tíma í kringum 1990 en eftir það söng hann yfirleitt ekki með hljómsveitum, hann söng þó einstaka sinnum í seinni tíð með hljómsveitinni Milljónamæringunum (sem hann söng með m.a. Nirvana lagið Smells like teen spirit) og söngtríóinu Lævirkjunum. Hann vann einnig með öðrum fjölmörgum tónlistarmönnum og söng inn á plötur þeirra, þar má m.a. nefna Brooklyn fæv, Dívurnar, Þröst Sigtryggsson, Stuðmönnum, Mjöll Hólm, Stórsveit Reykjavíkur, Spilverk þjóðanna, Snörurnar, Björgvin Halldórsson, Guðmund Ingólfsson o.m.fl. Einnig þótti sjálfsagt að kalla Ragnar til þegar jólaplötur voru unnar og var hann tíður gestur á slíkum plötum. Má þar nefna plötur sem Gunnar Þórðarson hefur komið að, auk annarra.

Ragnar var jafnframt alltaf duglegur að syngja stök lög fyrir hina og þessa á safnplötum eins og Hafið lokkar og laðar, Á frívaktinni, Íslandslög o.fl., en lög hans hafa ennfremur komið út á ótal safnplötum í gegnum tíðina, þar má t.d. nefna Óskalagaplöturnar, Óskastundsplöturnar, Svona var það…-seríuna, og þannig mætti lengi telja.

Ragnar var duglegur að syngja opinberlega síðustu árin, bæði á tónleikum sem og ýmsum fjölmiðlatengdum uppákomum. Frægt er t.a.m. þegar hann söng „Allir eru að fá sér“ ásamt Blaz Roca (Erpi Eyvindarsyni) og Ágústi Bent Sigbertssyni úr XXX Rottweiler í áramótaþætti Hljómskálans 2012. Ragnar kom jafnframt fram á fjölda sýninga á leikritinu Elly, sem sett var á svið í Borgarleikhúsinu við miklar vinsældir, og var byggt á ævi söngkonunnar Elly Vilhjálms, hann kvaddi söngsviðið opinberlega haustið 2019 á tónleikum í Hörpu en þeir báru yfirskriftina Raggi Bjarna 85 ára. Ragnar lést í febrúar 2020 á áttugasta og sjötta aldursári.

Það er óhætt að segja að Ragnar Bjarnason sé einn af þeim ef ekki sá allra ástsælasti og virtasti söngvari sem Ísland hefur alið og kynslóðir eftir kynslóðir hafa notið söngs hans í útvarpi og ekki síst á sviði. Þótt kominn væri á efri ár sló hann hvergi slöku við. Á fjórða tug smáskífa komu út á sínum tíma með söng hans, um tíu breiðskífur og þá eru ótaldar safnplöturnar og þær sem hann hefur birst sem gestur í misstórum hlutverkum.

Efni á plötum