Ragnar H. Ragnar (1898-1987)

Ragnar H. Ragnar

Ragnar H. Ragnar

Ragnar H. Ragnar var þekktur tónlistarfrömuður á Ísafirði og telst vera ásamt Jónasi Tómassyni, fremstur til eflingar tónlistarlífs á árum áður vestra.

Ragnar Hjálmarsson (Ragnar H. Ragnar) (f. 1898) ólst upp í S-Þingeyjasýslu og fluttist ungur til Kanada, þar nam hann m.a. píanóleik, hljómfræði og fleira, og vann ýmiss störf auk þess sem hann stjórnaði karlakór Íslendinga í Íslendingabyggðum Kanada. Síðar flutti hann sig um set til Bandaríkjanna þar sem hann stýrði einhverjum kórum einnig.

Þegar heimsstyrjöldin síðari hófst gekk hann í bandaríska herinn þrátt fyrir að vera kominn á fimmtugs aldur en hann þótti vera nokkuð vel á sig kominn líkamlega. Hann var sendur heim til Íslands þar sem hann gegndi hér trúnaðarstörfum í lok styrjaldar, hann sinnti tónlistaráhuga sínum lítt hér heima en stjórnaði þó kór Þingeyinga í Reykjavík.

Hér kvæntist hann íslenskri eiginkonu en flutti aftur til Bandaríkjanna eftir að stríði lauk. Þar tók hann upp ættarnafnið Ragnar en ástæða þess var sú að þarlendir áttu í erfiðleikum með að bera fram nafnið Hjálmarsson og því hentaði Ragnar mun betur, kallaði hann sig æ síðan Ragnar H. Ragnar.

1948, nokkru eftir að Ragnar flutti til Bandaríkjanna, bauðst honum að starf skólastjóra við nýstofnaðan tónlistarskóla á Ísafirði, má þá segja að nýr kafli sem kenna má við tónlist, hefjist í ævi hans.

Á Ísafirði tók hann við nýja starfinu og tók við kefli Jónasar Tómassonar sem tónlistarfrömuður bæjarfélagsins en auk þess að stýra tónlistarskólanum og kenna við hann, gerðist hann organisti við Ísafjarðarkirkju og hóf að stjórna Sunnukórnum og Karlakór Ísafjarðar.

Skólastjóraembættinu gegndi Ragnar í á fjórða áratug og kórunum stýrði hann um áratuga skeið, Sunnukórnum í tuttugu og sjö ár og karlakórnum í tuttugu ár. Plata með kórunum kom út 1968.

Börn Ragnars (Hjálmar H., Anna Áslaug og Sigríður) urðu einnig áberandi í tónlistarlífinu fyrir vestan (og reyndar víðar), þau komu öll við sögu Sunnukórsins sem undirleikarar og báru hróður ísfirsks tónlistarlífs víða.

Ragnar hlaut fálkaorðuna og síðar stórriddarakross fyrir framlag sitt í þágu tónlistarinnar og var gerður að heiðursborgara Ísafjarðar 1978. Hann lést 1987.

Listaverkið Kuml var reist á Ísafirði í minningu Ragnars síðar.