Frúrnar þrjár og Fúsi (1954-55)

Frúrnar þrjár og Fúsi

Söng- og skemmtiflokkurinn Frúrnar þrjár og Fúsi fór um landið tvö sumur með skemmtidagskrá um miðjan sjötta áratug liðinnar aldar, 1954 og 55.

Það voru leikkonurnar Áróra Halldórsdóttir, Emilía Jónasdóttir og Nína Sveinsdóttir sem skipuðu flokkinn ásamt tónskáldinu og píanóleikaranum Sigfúsi Halldórssyni en hópurinn fór af stað snemma sumars 1954 með skemmtidagskrá um landið, fyrst til Vestfjarða og svo voru aðrir landshlutar heimsóttir hver af öðrum við miklar vinsældir. Hópurinn flutti þá stutta leikþætti með söng, leik og dansi en tónlist Sigfúsar var þó fyrirferðamest í dagskránni. Um haustið skemmtu þau svo í Reykjavík.

Næsta sumar (1955) var sagan endurtekin en þá höfðu þær breytingar orðið á skipan hópsins að Áróra datt út en í hennar stað kom Gestur Þorgrímsson, því gekk hópurinn undir nafninu Frúrnar, Fúsi og Gestur eða FFG.