Gitte Pyskov (1944-2006)

Gitte Pyskow

Litlar upplýsingar er að finna um danska sýlófónleikarann og undrabarnið Gitte Pyskov (fædd Birgitte Pyskow) sem kom til Íslands haustið 1953 og skemmti hér við miklar vinsældir á kabarettsýningum sem Sjómannadagsráð stóð fyrir, auk annarra skemmtana við undirleik KK sextetts og Hljómsveitar Carls Billich. Gitte var fædd 1944 en eitthvað var aldur hennar á reiki í umfjöllun dagblaðanna þegar hún skemmti hér.

Leikur hennar var hljóðritaður hér á landi þar sem þeir Fritz Weisshappel píanóleikari og Jón Sigurðsson bassaleikari léku með henni en afraksturinn kom út á tveggja laga plötu sumarið eftir (1954) á vegum Tónika útgáfunnar.

Gitte kom aftur til landsins haustið 1956, hún skemmti þá á kabarettsýningum á vegum Blaðamannafélags Íslands ásamt Lenu yngri systur sinni en þær léku báðar á sýlófóna. Þær systur komu síðan í þriðja sinn hingað til lands 1959.

Einhver misskilningur var hér á landi um að Gitte sem hér er um rætt, hafi verið sama manneskjan og danska söng- og leikkonan Gitte Hænning/Henning en það er alrangt, þær voru þó á svipuðum aldri.

Gitte Pyskov lést árið 2006

Efni á plötum