Nora Brocksted (1923-2015)

nora-brocksted

Nora Brocksted

Norska söngkonan Nora Brocksted (fædd 1923) kemur lítillega við sögu íslenskrar tónlistar en hún kom hingað tvívegis og skemmti landanum. Aukinheldur gaf hún út tvær plötur hérlendis þar sem hún söng á íslensku.

Nora (skírð Nora Berg) hafði sungið með norska söngkvintettnum Monn keys um tíma þegar kvintettinn kom til Íslands árið 1954 og hélt hér tónleika undir stjórn Egil Monn-Iversen sem jafnframt var undirleikari hópsins.

Hún ferðaðist lítillega um Ísland, hreifst af landi og þjóð og var staðráðin í að koma hingað aftur, þegar af því gat ekki orðið ári síðar vegna anna söngkonunnar var afráðið að hún myndi syngja tvö lög á íslensku í Noregi til útgáfu á Íslandi. Henni til ráðgjafar um textaframburð var Sverrir Júlíusson en hann var í námi í Osló.

Platan kom síðan út á vegum íslenskra tóna 1955 og hafði að geyma lögin Svo ung og blíð (Gilly Gilly Ossenfeffer Katsenellen kofa út við sjó) og Æskunnar ómar. Bæði lögin voru erlend við texta Þorsteins Sveinssonar. Platan sló samstundis í gegn og var ekki hvað síst að þakka skemmtilegum framburði söngkonunnar og kvintettsins á henni. Hljómsveit Egil Monn-Iversen lék undir.

Önnur tveggja laga plata með Noru Brocksted kom út haustið 1957, sama forskrift var höfð og við hina fyrri plötu – erlend lög við íslenska texta Þorsteins Sveinssonar.

Í þetta sinn naut söngkonan aðstoðar Jóns Gunnarssonar við framburðinn á lögunum en þau heita Eyjavalsinn og Tangótöfrar, stuttu áður hafði síðarnefnda lagið slegið í gegn í heimalandi Noru undir nafninu Tango for to. Eftir plötunni var beðið hér heima með mikilli eftirvæntingu og seldist hún upp á tveimur tímum.

nora-brocksted-og-monn-keys

Nora Brocksted og Monn keys

Lögin fjögur á plötunum tveimur hafa ratað á íslenskar safnplötur í gegnum tíðina, þeirra á meðal má nefna Aftur til fortíðar 50-60 II (1990), Stelpurnar okkar (1994), Stóra bílakassettan VI (1980), Óskalögin (1997), Þrjátíu vinsæl lög frá 1950-60 (1977) og Manstu gamla daga (2007).

1958 kom Nora Brocksted aftur til Íslands og hélt hér tvenna eða þrenna tónleika í Austurbæjarbíói ásamt undirleikara. Um það leyti var Nora orðin ein allra vinsælasta söngkona Norðurlanda, einkum í Noregi og Svíþjóð, og svo fór að hún sagði slitið við Monn key kvintettinn og hóf farsælan sólóferil.

Hún vann sér til frægðar 1960 að verða fulltrúi Noregs í Eurovision söngkeppninni árið 1960 en Noregur tók þá þátt í fyrsta skipti. Nora hafnaði í þriðja til fjórða sæti af þrettán keppnisþjóðum, hún tók aftur þátt 1961. Alls liggja eftir hana vel á annað hundrað platna.

Nora Brocksted lést 2015, þá níutíu og tveggja ára gömul.

Árið 2006 kom út 24 laga plata í takmörkuðu upplagi með Noru og Jens Book-Jensson á vegum Sigurjóns Samúelssonar plötusafnara á Hrafnabjörgum en hann hafði þá yfirfært efni af 78 snúninga plötunum á stafrænt form, þ.á.m. voru lögin fjögur sem höfðu komið út 1955 og 57 en einnig íslensk lög sungin á norsku s.s. Historien om den lille fluen (Litla flugan) og Ungdomsminner (Æskuminning).

.

Efni á plötum