Guðrún Guðmundsdóttir [1] (1928-2013)

Guðrún Guðmundsdóttir

Guðrún Guðmundsdóttir var líklega þekktari í leikhúsheiminum en tónlistarheiminum en hún starfaði þó um tíma með Ingibjörgu Þorbergs þar sem þær skemmtu börnum með ýmsum hætti með söng og leikatriðum.

Guðrún var fædd 1928 í Reykjavík og bjó þar alla ævi, hún var gift leikaranum Klemenz Jónssyni og starfaði mest alla starfsævi sinnar á skrifstofu Þjóðleikhússins sem fulltrúi. Hún var einnig í áratugi viðloðandi Þjóðleikhúskórinn, bæði sem einn meðlimur kórsins og var jafnframt í stjórn hans. Guðrún lék eitthvað sjálf, m.a. í óperunni Il trovatore í Þjóðleikhúsinu (1963), eitthvað á vegum Leikfélags Kópavogs, í útvarpsleikritum (m.a. Mjallhvít og dvergarnir sjö) og revíusýningum.

Á árunum 1966 til 69 starfaði Guðrún hjá Ríkisútvarpinu, var þá um tíma með útvarpsþátt fyrir börn ásamt Ingibjörgu Þorbergs þar sem þær voru með fjölbreytilegt efni s.s. söng og hljóðfæraslátt. Þær skemmtu einnig víða, á 17. júní samkomum og hvers kyns samkomum þar sem börn voru, og meðal efnis sem þær fluttu voru lög eftir Ingibjörgu úr barnaleikritinu Ferðin til Limbó sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu veturinn 1965-66 en hluti þeirra laga (auk fleiri laga) komu út á sex laga plötu árið 1969 undir titlinum Ingibjörg Þorbergs syngur barnalög ásamt Guðrúnu Guðmundsdóttur við undirleik Carls Billich. Fleiri lög með þeim stöllum komu út á plötunni Útvarpsperlur: Ingibjörg Þorbergs syngur (2005). Þær Ingibjörg og Guðrún komu einnig oft fram í Stundinni okkar í Sjónvarpinu um þetta leyti en Guðrún söng þar einnig ásamt Rósu Ingólfsdóttur.

Guðrún Guðmundsdóttir lést vorið 2013.

Efni á plötum