Gunnar Kr. Guðmundsson (1936-2013)

Gunnar Guðmundsson

Líklega er þrautseigja besta hugtakið til að lýsa tónlistarmanninum Gunnari Kr. Guðmundssyni en þrátt fyrir að vera bæði blindur og einhentur gaf hann út kassettu og lék á harmonikku og önnur hljóðfæri við hin ýmsu tækifæri.

Gunnar Kristinn Guðmundsson fæddist árið 1936 austur í Breiðdal og var farinn að leika á orgel eftir eyranu ungur að árum. Tíu ára gamall lenti hann í því slysi að hvellhetta úr tundurdufli sprakk með þeim afleiðingum að hann missti framan af hægri handlegg og sjónina á báðum augum, varð alveg blindur.

Hann kom suður til Reykjavíkur þar sem hann bjó síðan og starfaði m.a. við Blindravinnustofuna og einnig við símsvörun hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga en áhugamálið tónlistin varð fötluninni yfirsterkari og hann hóf að rækta tónlistina í sér með harmonikku- og orgelleik. Síðan lærði hann einnig á gítar og trompet en notaði sérstakt áhald sem hann festi framan á handleggsstúfinn til að geta leikið á hljóðfærin, og náði umtalsverðri leikni á þau svo eftir var tekið.

Gunnar var því oft fenginn til að leika á hljóðfæri sín ýmist einn eða með öðrum, á skemmtunum og dansleikjum og meira að segja í útvarpinu. Hann var t.d. nokkuð virkur í félagsskap harmonikkuleikara og var gerður að heiðursfélaga í Félagi harmonikuunnenda í Reykjavík (F.H.U.R.) árið 1984. Þess má geta að hann var fenginn til að leika einleik á harmonikku í Grieg-tónleikahöllinni í Bergen í Noregi.

Gunnar samdi einnig tónlist, hafði unnið m.a. til verðlauna í danslagakeppnum SKT á sjötta áratugnum og haustið 1979 sendi hann frá sér tólf laga kassettu með frumsömdum lögum, sem hann vann sjálfur í eigin heimastúdíói en hann hafði þá fjárfest í fjögurra rása upptökutæki. Kassettan hlaut titilinn Vinstri handar spil, og lék Gunnar á ýmis hljóðfæri á þeirri útgáfu. Hann hafði uppi áform um að gefa meira út síðar en ekki virðist hafa orðið úr því.

Gunnar Kr. Guðmundsson lést árið 2013.

Efni á plötum