Gústavus (1970-78)

Ballhljómsveitin Gústavus (stundum ritað Gústafus) starfaði á Akureyri um nokkurra ára skeið á áttunda áratug síðustu aldar og lék tónlist fyrir alla aldurshópa.

Sveitin var stofnuð sumarið 1970 og voru meðlimir hennar í upphafi Guðmundur Meldal trommuleikari, Snorri Guðvarðarson gítarleikari, Finnur Finnsson bassaleikari og Björgvin Baldursson gítar- og harmonikkuleikari. Sveitin þótt leika meira rokk en aðrar sambærilegar sveitir á Norðurlandi og gekk það ágætlega upp þrátt fyrir að harmonikkan væri áberandi í spilamennskunni, fyrir vikið mættu eldri kynslóðirnar á böll sveitarinnar einnig.

Gústavus starfaði ekki samfleytt, hún starfaði t.d. ekkert árið 1972 en byrjaði aftur 1973 og þá sem tríó þeirra Finns, Guðmundar og Björgvins og gekk þá undir nafninu Tríó Gústavus um tíma. Sveitin átti tvö lög á safnplötunni Eitt með öðru sem Tónaútgáfan á Akureyri sendi frá sér haustið 1976 en þau vöktu ekki mikla athygli.

Gústavus starfaði til ársins 1978 og virðast meðlimir hennar oftast hafa verið hinir sömu og nefndir eru hér að ofan, Jóhannes Ásbjörnsson og Helgi Guðmundsson voru þó einhverju sinni meðlimir sveitarinnar.