Gúttó í Hafnarfirði [tónlistartengdur staður] (1886-)

Góðtemplarahúsið við Suðurgötu 7 í Hafnarfirði

Góðtemplarahúsið í Hafnarfirði (í daglegu tali kallað Gúttó) var lengi aðal samkomustaður Hafnfirðinga og gegndi þar margvíslegu hlutverki um árabil, m.a. annars til tónleika- og dansleikjahalds.

Það voru góðtemplarar í Hafnarfirði sem stóðu fyrir byggingu hússins en það var fyrsta hús sinnar tegundar á landinu, síðar áttu eftir að rísa „Gúttó“ víða um land. Ákvörðun hafði verið tekin um að byggja húsið árið 1885 og ári síðar var það upp risið, klætt viðarklæðningu en síðar bárujárni. Í upphafi var aðeins um eina álmu að ræða en síðar voru byggðar nýjar álmur sitt hvoru megin við þá gömlu og þannig stendur húsið enn í dag. Húsið hýsti um þrjú hundruð manns í upphafi og var þá gjarnan talað um að það hýsti alla Hafnfirðinga sem þá voru lítið fleiri eða um fjögur hundruð talsins.

Síðan Gúttó var reist (við Suðurgötu 7) í Hafnarfirði hefur margsinnis verið lappað upp á það, síðast árið 2010 þegar farið var í miklar viðgerðir utan á húsinu. Húsið er í dag elsta samkomuhús landsins.

Gúttó var hugsað fyrir alls kyns félagsstarf og hafa mörg félög bæði verið stofnuð þar og haft það sem fundarstað, þeirra á meðal má nefna Sjómannafélag Hafnarfjarðar og Verkamannafélagið Hlíf, má segja að húsið hafi hýst alla mögulega menningarstarfsemi Hafnarfjarðar og má þar m.a. nefna undir trúarsamkomur, bókamarkaði, almennt fundahald, skólahald, glímusýningar, bæjarstjórnarfundi, leikhússýningar, tónleikahald og dansleiki en margir þekktir tónlistarmenn og hljómsveitir hafa flutt tónlist sína þar, Hreinn Pálsson og Stefán Íslandi héldu þar til dæmis tónleika og hljómsveitir eins og GO kvintettinn, Hljómsveit Magnúsar Randrup, Hljómsveit Aage Lorange, hið svokallaða Pjeturs-band, Ungir piltar og margar fleiri hafa leikið á dansleikjum í húsinu. Þess má einnig geta að karlakórinn Þrestir í Hafnarfirði hélt sína fyrstu tónleika þar.

Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvenær dansleikir og tónleikahald var aflagt í Gúttó en húsið stendur enn í ágætu ásigkomulagi og eru þar stundum sýningar á vegum Hafnarfjarðarbæjar og fleiri aðila.