Gúttó við Tjörnina [tónlistartengdur staður] (1887-1968)

Gúttó á Tjarnarbakkanum

Góðtemplarahúsið við Tjörnina í Reykjavík (Gúttó við Tjörnina) var hvorki falleg né háreist bygging en hún hafði sögulegt gildi sem einn helsti skemmtistaður Reykvíkinga og ekki síður fyrir þá atburði sem urðu í og við húsið á kreppuárunum þegar Gúttóslagurinn svokallaði átti sér stað.

Góðtemplarareglan á Íslandi (alþjóðleg hreyfing I.O.G.T.) hafði hafið innreið sína um miðjan níunda áratug nítjándu aldararinnar og árið 1887 hlaut stúkan Eining í Reykjavík vilyrði fyrir lóð (ofan í Tjörninni norðanverðri aftan við Alþingishúsið) fyrir félagsheimili þó með þeim skilyrðum að húsið þyrfti að víkja ef alþingi þyrfti á reitnum að halda, þá var þegar búið að reisa slíkt hús í Hafnarfirði.

Templarar réðust þegar í landfyllingu og sama haust (1887) var timburklætt bárujárnshús á einni hæð risið og hlaut nafnið Góðtemplarahúsið við Tjörnina en varð í daglegu tali kallað Gúttó eða Gúttó við Tjörnina. Húsið stóð um tíma nánast á tjarnarbakkanum en síðar var enn fremur fyllt í tjörnina og þá hlaut gatan meðfram húsinu Vonarstræti og við austuhlið þess kom Templarasund (nefnt í raun eftir Góðtemplarahúsinu) þannig að húsið stóð á horni gatnanna tveggja. Byggt var síðar við húsið að vestanverðu en húsið tók um þrjú hundruð manns í sal, þar var danssalur og svið auk minni eininga.

Vestari endi hússins 1915

Þegar hófst starfsemi af ýmsu tagi í Gúttó, bæjarstjórnarfundir voru haldnir þar um þriggja áratuga skeið (1903-33) og var því húsið með réttu ráðhús Reykjavíkur, og þar gerðist sá sögulegi atburður haustið 1932 í miðri alheimskreppunni að bæjarstjórnin ákvað að lækka laun verkamanna um 25% og við það urðu einu mestu óeirðir í sögu þjóðarinnar, hinn svokallaði Gúttóslagur þar sem verkamenn börðust við lögreglu sem kölluð var til og slösuðust fjölmargir í þeim látum, húsið skemmdist og innanstokksmunir eyðilögðust.

Ýmsar stofnanir og félagasamtök þess tíma héldu samkomur sínar í Góðtemplarahúsinu, guðþjónustur voru t.d. haldnar í húsinu á vegum Fríkirkjunnar allt þar til hún reisti sína eigin kirkju 1903, leiksýningar voru einnig haldnar í húsinu og allt þar til Iðnó var byggt en einnig voru ýmsar aðrar samkomur þar, þar fóru einnig fram danskennsla, málverkasýningar, tombólur, fyrirlestrar og fundahöld af ýmsu tagi en mest áberandi var þó tónlistarflutningur þar, ýmist í formi tónleika eða dansleikja. Dansleikirnir í húsinu voru að sjálfsögðu vínlausar samkomur enda var það yfirlýst markmið templara, og segir sagan að „þefarar“ hafi farið um húsið meðan dansleikir fóru þar fram til að leita eftir áfengi sem einhverjir kynnu að hafa smyglað með sér inn. Vinsælar samkomur í Gúttó voru svokallaðar danslagakeppnir SKT sem fóru fram þar um árabil en það voru keppnir sem Freymóður Jóhannsson (12. september) stóð fyrir og stjórnaði. Margar af þekktustu dægurlagaperlum íslenskrar tónlistarsögu voru því frumfluttar í húsinu.

Gúttó skömmu áður en það var rifið 1968

Gúttó var framan af vinsælt til tónleikahalds, Ingimundur Sveinsson (Ingimundur fiðla) hélt þar t.d. tónleika sem og Söngfélagið Harpa og jafnvel Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt þar tónleika á upphafsárum sínum. Dansleikjahald í húsinu var þó líkast til það sem stóð upp úr en þar skemmtu Reykvíkingar sér í áratugi við undirleik hljómsveita Braga Hlíðberg, Jan Morávek, Skapta Ólafssonar, Jose Riba, Jóhanns Gunnars Halldórssonar og fjölda annarra, fjölmargir söngvarar og hljóðfæraleikarar stigu þar á stokk og skemmtu skemmtanaþyrstum gestum hússins.

Með tímanum minnkuðu vinsældir Gúttós, ný hús voru byggð og nýir skemmtistaðir tóku við samhliða því sem húsnæðið eltist og drabbaðist smám saman niður. Svo fór að lokum að það var rifið haustið 1968 enda kom þá loks að því að Alþingi skyldi nýta lóðina eins og kveðið var á um í upphafi, lóðin var því nýtt undir bílastæði Alþingis og er enn notað sem slíkt. Um það leyti voru menn að byrja að sjá fyrir sér friðanir gamalla húsa og var t.d. Torfan svokallaða friðuð nokkrum árum síðar en þrátt fyrir það var þetta gamla og sögufræga hús rifið á fáeinum dögum, Árni Óla og fleiri börðust fyrir því að húsið yrði flutt upp í Árbæ (þar sem Árbæjarsafn stendur í dag) en það hlaut ekki hljómgrunn og líkast til hefur mönnum þótt lítil prýði af húsinu sem þá var orðið ríflega áttatíu ára gamalt og í niðurníðslu.

Minningin lifir þó um Gúttó við Tjörnina og um húsið og sögu þess hefur heilmikið verið ritað, einkum í tengslum við Gúttóslaginn 1932, þess má einnig geta að útvarpsmaðurinn Pétur Pétursson gerði á sínum tíma þáttaröð um húsið og bar hún nafnið Gamla Gúttó: horfin menningarmiðstöð.