Canto kvartettinn (1945-51)

Canto kvartettinn var tvöfaldur kvartett (þótt nafn hans gefi annað til kynna) sem starfaði á Siglufirði um miðja síðustu öld en þar í bæ var sönglíf með ágætum, sbr. Karlakórinn Vísir.

Kvartettinn mun hafa komið fyrst fram á þorrablóti í upphafi ársins 1945 og því er ekki ólíklegt að hann hafi verið stofnaður fyrir áramótin 1944-45. Meðlimir hans voru þeir Jón Gunnlaugsson, Karl Sæmundsson, Sigurbjörn Frímannsson, Sigurgeir Þórarinsson, Sveinbjörn Tómasson, Jónas Björnsson, Þórður Kristinsson og Sigurður Gunnlaugsson en sá síðast taldi var jafnframt stjórnandi Canto kvartettsins.

Kvartettinn hélt fjölda tónleika meðan hann starfaði, yfirleitt við góðar undirtektir og aðsókn en líkur eru á að starfsemi hans hafi ekki verið alveg samfleytt. Ekki virðast hafa orðið neinar breytingar á skipan Canto kvartettsins á því sex ára tímabili sem hann starfaði, Guðný Fanndal var undirleikari hans a.m.k. síðari hluta starfstíma hans en kvartettinn hætti líklega störfum um mitt ár 1951.