Tónakvartettinn frá Húsavík (1963-69)

Tónakvartettinn ásamt Björgu Friðriksdóttur

Tónakvartettinn var söngkvartett starfandi á Húsavík á árunum 1963 til 1969, hann kom margsinnis fram opinberlega og eftir hann liggja nokkrar plötur.

Kvartettinn tók til starfa vorið 1963 og birtist á ýmsum skemmtunum á heimaslóðum, það var þó ekki fyrr en 1966 sem hann hélt sína fyrstu sjálfstæðu tónleika (á Húsavík) og þá fyrst hlaut hann nafn sitt, Tónakvartettinn.

Meðlimir kvartettsins voru bræðurnir Ingvar Þórarinsson (fyrsti tenór) og Stefán Þórarinsson (annar tenór), Eysteinn Sigurjónsson (fyrsti bassi) og Stefán Sörensen (annar bassi). Æfingar fóru alla tíð heima hjá Ingvari en Björg Friðriksdóttir eiginkona hans var undirleikari Tónakvartettsins. Á þeim sex árum sem kvartettinn starfaði mun hann hafa sungið á yfir fimmtíu stöðum en á sumum þeirra munu þeir hafa komið fram alloft.

Í ársbyrjun 1967 sendi Tónakvartettinn frá sér sína fyrstu plötu, sex laga plötu sem SG-hljómplötur gáfu út. Platan fékk ágætar viðtökur og hún fékk til að mynda þokkalega dóma í Tímanum.

Önnur lítil plata kom út tveim árum síðar, það var fjögurra laga plata og voru Tónakvartettinn og Grettir Björnsson harmonikkuleikari skrifaðir fyrir henni í sameiningu en auk þeirra lék hljómsveit undir með þeim. Sú plata hlaut einnig ágæta dóma í Tímanum og jafnvel enn betri í Morgunblaðinu.

Fljótlega eftir útgáfu síðari smáskífunnar hætti kvartettinn störfum, Stefán Sörensen var þá að flytja suður til Reykjavíkur og sáu hinir ekki ástæðu til að halda samstarfinu áfram eftir það með nýjum söngvara. Tónakvartettinn kom þó saman að minnsta kosti tvívegis á árinu 1970 til að syngja á tónleikum, en 1969 var þó árið sem þeir hættu með formlegum hætti.

Það var svo árið 1973 sem SG-hljómplötur gaf út ellefu laga breiðskífu með áður óútgefnum lögum Tónakvartettsins, á henni var að finna lög úr ýmsum áttum en ekki liggur fyrir hvort um var að ræða nýjar upptökur eða hljóðritanir úr fórum SG-hljómplatna eða Ríkisútvarpsins. Platan, sem bar nafn kvartettsins, fékk góða dóma í Morgunblaðinu.

Tónakvartettinn frá Húsavík var flestum gleymdur þegar tvöföld plata, Tónakvartettinn frá Húsavík, kom út árið 2003 í tilefni af því að fjörutíu ár voru þá liðin frá því að kvartettinn var stofnaður. Á plötunni voru fjörutíu og átta lög, bæði lög sem höfðu áður komið út en einnig upptökur úr eigu Ríkisútvarpsins, allt upptökur frá sjöunda áratugnum. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og þótti kjörin leið til að halda minningu Tónakvartettsins á lofti. Útgefendur voru eftirlifandi meðlimir kvartettsins og afkomendur þeirra.

Lög með Tónakvartettnum hafa komið út á nokkrum safnplötum, meðal þeirra má nefna Söngvasjóð (1993, Óskastundina (2002), Stóru bílakassettuna IV og VIII (1979 og 80) og Hafið lokkar og laðar (1975).

Efni á plötum