Ebenezer Quart í lifandi streymi frá Cadillac klúbbnum

Fimmtudagskvöldið 10. september, annað kvöld, stendur Cadillac klúbburinn fyrir lifandi streymi eins og undanfarin fimmtudagskvöld. Að þessu sinni er það hljómsveitin Ebenezer Quart sem stígur á svið en tónleikarnir hefjast klukkuna 20:30 og hægt verður að streyma þeim í gegnum Facebook-síðu Cadillac klúbbsins.

Ebenezer Quart er blúshljómsveit í víðum skilningi þess orðs. Það eru ekki endilega teknir þekktir blús-slagarar, heldur er grafið í kistu góðra laga og þau útsett eftir smekk Ebenezar. Vissulega eru samt klassískir standardar á listanum, en aðalmálið er að hafa gaman að.

Ebenezer Quart er kvintett góðra og gildra þjóðfélagsþegna sem hafa getið sér gott orð fyrir drengskap og þolanlega hegðun í áranna rás. Þetta eru þeir Einar Rúnarsson á hljómborð, Jón Kjartan Ingólfsson á bassa, Oddur F. Sigurbjörnsson á trommur, Ragnar Emilsson á gítar og Sigurður Sigurðsson á söng og munnhörpu.