Chaplin (1978-83)

Chaplin

Hljómsveitin Chaplin starfaði um nokkurra ára skeið í Borgarnesi í kringum 1980, réttara væri þó að segja nokkurra sumra skeið því hún starfaði mestmegnis yfir sumartímann enda voru einhverjir meðlimir hennar við nám og störf utan þjónustusvæðis á veturna ef svo mætti komast að orði.

Chaplin var stofnuð sumarið 1978 og voru meðlimir hennar þá Halldór Hauksson trommuleikari, Kári Waage söngvari, Hörður Óttarsson hljómborðsleikari, Ævar Rafnsson bassaleikari og Gunnar Ringsted gítar- og hljómborðsleikari, fljótlega bættist svo Birgir Guðmundsson gítarleikari í hópinn og þannig skipuð lék sveitin víða í Borgarfirði um veturinn 1978-79

Sveitin spilaði einnig víða um sumarið 1979 en fór svo í frí um veturinn þar sem einhverjir meðlima hennar voru við nám erlendis. Vorið 1980 birtist Chaplin með breytta liðsskipan, Halldór, Ævar, Gunnar og Kári voru á sínum stað en í stað Birgis var nú komin Kristján Óskarsson sem lék á hljómborð en Gunnar var þá búinn að færa sig alfarið á gítarinn, einnig höfðu þá bæst í hópinn  Eva Ásrún Albertsdóttir söngkona, sem þá hafði starfað með Brunaliðinu og Magnús Baldursson saxófón- og flautuleikari.

Nýju meðlimir sveitarinnar komu úr Reykjavík og það var því við hæfi að sveitin léki eitthvað á höfuðborgarsvæðinu en það hafði hún ekki gert áður, einnig höfðu áherslurnar í tónlistinni breyst og í stað rokks sem sveitin hafði áður lagt áherslu á var ska-tónlist í anda hljómsveitarinnar Madness alls ráðandi. Sveitin fór í sveitaballarúnt um landsbyggðina um sumarið og spilaði nokkuð þétt vitandi það að hún myndi aftur fara í pásu um veturinn. Í lok sumars hætti Eva Ásrún en hún var þá að hefja nám í ljósmæðranámi og um svipað leyti hætti Kristján einnig, þeir hinir léku þó áfram út september þegar Magnús myndi yfirgefa svæðið en Birgir Guðmundsson fyrrum gítarleikari sveitarinnar brúaði bilið sem hin höfðu skilið eftir sig og við það færði Gunnar sig yfir á hljómborðið.

Chaplin 1980

Chaplin kom enn saman vorið 1981 og þá var tveggja laga plata hljóðrituð (Teygjutwist (Teygjutvist á plötumiða) / 12612) en hún kom út um sumarið, fyrrnefnda lagið naut nokkurra vinsælda en það er instrumental. Sagan segir að hitt lagið (12612) hafi verið bannað í Ríkisútvarpinu, ástæðan var sú að í viðlaginu kemur fyrir eftirfarandi lína: „þeir sem verða blankir hringi í tólf, sex, tólf“ sem reyndist vera símanúmer hjá gamalli konu sem hlaut af fyrir vikið nokkurt ónæði. Sveitin gaf smáskífuna út sjálf og fékk hún þokkalega dóma í Morgunblaðinu og góða í Þjóðviljanum og Tímanum. Þess má geta að sveitin lék á dansleikjum eitthvað meira af frumsömdu efni en það sem kom út á plötunni og meðal þeirra var lag eftir Pálma J. Sigurhjartarson og Kára (söngvara) sem síðar var gefið út af Sniglabandinu undir titlinum Éttu úldinn hund og naut reyndar nokkurra vinsælda í meðförum þeirrar sveitar.

Þetta sumar (1981) var Chaplin skipuð þeim Magnúsi, Gunnari, Kára og Halldóri auk Kristjáns Edelstein sem lék á gítar og hljómborð, sveitin lék víða á dansleikjum sem fyrr og um verslunarmannahelgina var hún meðal sveita sem léku í Árnesi. Þórður Guðmundsson bassaleikari mun hafa leikið á einhverjum tímapunkti með Chaplin en ekki liggur fyrir hvenær það var.

Eins og áður lagðist sveitin í híði um haustið og ráðgert var að hún myndi aftur birtast næsta vor (1982) sem gerðist þó ekki af einhverjum ástæðum. Árið 1983 var reynt að endurreisa hana undir nafninu Sjapplín með sama mannskap en eitthvað varð lítið úr þeirri ráðagerð og ekki er ljóst hvort sveitin lék nokkru sinni undir því nafni. Sögu Chaplin var reyndar ekki alveg lokin þarna því þeir félagar komu saman árið 1988 í tilefni af tíu ára afmæli sínu.

Sumir meðlimir sveitarinnar hafa gert garðinn frægan með ýmsum þekktum hljómsveitum.

Efni á plötum