Afmælisbörn 12. nóvember 2020

Jón Björn Ríkarðsson

Fjögur tónlistartengd afmælisbörn dagsins eru eftirfarandi:

Natalía Chow Hewlett kórstjórnandi frá Hong Kong er fimmtíu og átta ára gömul á þessum degi, hún hefur stýrt kórum eins og Kvennakór Kópavogs, Englakórnum og Kór Ytri-Njarðvíkurkirkju.

Þá á Emilía Björg Óskarsdóttir söngkona (Emilía í Nylon) þrjátíu og sex ára afmæli í dag. Emilía staldraði styst í Nylon-flokknum, kom síðust inn í hópinn og hætti fyrst, hún tilheyrði því aldrei The Charlies eins og þær kölluðu sig síðar.

Jón Björn Ríkarðsson bakari og trommuleikari frá Dalvík er fjörutíu og fjögurra ára gamall í dag. Jón Björn er þekktastur sem trymbill hljómsveitarinnar Brain Police en hann hefur starfað með fjölda annarra hljómsveita s.s. Vírskífu, Tombstone, Uxorius, Útópíu, Beyglunni, Gran Falune og Neistum svo dæmi séu nefnd.

Einar Kristján Einarsson gítarleikari hefði einnig átt afmæli þennan dag en hann lést 2002. Einar Kristján var fæddur 1956, lék með fjölda hljómsveita en þeirra kunnust er Rússíbanarnir sem gaf út nokkrar plötur, hann lék einnig með sveitum eins og Fló og Keltum, og kom oft fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur og Caput-hópnum. Þrjár plötur hafa komið út með gítarleik Einars Kristjáns, þar af ein eftir andlát hans.

Vissir þú að Gunnar Fjeldsted Hjartarson fyrsti trommuleikari Pops og Steinar Fjeldsted í Quarashi, eru feðgar?