Glatkistan hlýtur styrk úr Akki

Glatkistan var fyrir stuttu eitt þeirra verkefna sem hlaut styrk úr Akki, styrktar- og menningarsjóði vélstjóra og vélfræðinga en Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM), sem hefur með úthlutanir úr sjóðnum að gera styrkir árlega ýmis rannsóknarverkefni, auk brautryðjenda-c og þróunarstarfs, menningarstarfsemi og listsköpunar.

Markmið og verkefni sjóðsins er eins og segir á vefsíðu VM „…að styrkja  m.a. rannsóknir og annað sem kemur félagsmönnum VM til góða við nám og störf til lands og sjávar, auk þess að styrkja brautryðjenda- og þróunarstarf sem hefur samfélagslegt gildi svo og menningarstarfsemi og listsköpun“. Styrkupphæðin til Glatkistunnar nemur einni milljón króna.

Styrkur þessi hefur mikið að segja fyrir Glatkistuna og gerir kleift að auka frekar við það efni sem þegar er komið í gagnagrunn vefsíðunnar, og er um leið hvatning til frekari verka en verkefnið hefur hingað til verið unnið sem hugsjónastarf án nokkurra utanaðkomandi styrkja hingað til. Í nýliðnum mánuði heimsóttu um sextán þúsund gestir vefsíðuna sem er met, og voru daglegar flettingar á henni vel yfir níu hundruð að meðaltali sem sýnir að margir notfæra sér þær upplýsingar sem gagnagrunnur Glatkistunnar hefur að geyma.

Glatkistan vill við þetta tækifæri færa Akki og Félagi vélstjóra og málmtæknimanna innilegar þakkir fyrir styrkinn sem mun án nokkurs vafa eiga þátt í að halda sögu íslenskrar tónlistar á lofti. Um leið er þakkað fyrir þær góðu viðtökur sem vefsíðan hefur hlotið hjá lesendum.