Félag harmonikuunnenda í Reykjavík [félagsskapur] (1977-)

Logo F.H.U.R.

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík (FHUR / F.H.U.R.) er öflugur félagsskapur sem hefur verið starfræktur frá því 1977, félagið hefur staðið fyrir margvíslegum uppákomum tengdum harmonikkutónlist og stuðlað að eflingu tónlistarinnar með ýmsum hætti.

Það mun hafa verið Karl Jónatansson harmonikkuleikari og -kennari sem hafði frumkvæðið að stofnun Félags harmonikuunnenda í Reykjavík og fékk í lið með sér nokkra nemendur sína haustið 1977. Markmið með stofnun félagsins var að auka og efla veg harmonikkunnar, kynna hana nýjum hlustendum og stefnt var að stofnun nótna- og plötusafns, þá skyldi halda skemmtifundi og dansleiki með lifandi tónlist.

Félagið stækkaði og strax vorið 1978 voru meðlimir þess orðnir um sextíu talsins en þá hafði ekki verið starfandi slíkur félagsskapur síðan á fimmta áratugnum og því heilmikill grundvöllur fyrir slíku félagi. Stofnun félagsins varð því öðrum áhugamönnum um harmonikkutónlst hvatning og á næstu árum spruttu um slík félög víða um landsbyggðina, sem mörg hver eru enn starfandi og lifa góðu lífi, því má segja að eins konar vakning hafi átt sér stað með þessu starfi Karls.

Bjarni Marteinsson var fyrsti formaður félags harmonikuunnenda og gegndi því embætti í sjö ár áður en Jón Ingi Júlíusson tók við, Yngvi Jóhannsson, Hilmar Hjartarson, Friðjón Hallgrímsson, Steinþóra Ágústsdóttir, Elísabet H. Einarsdóttir og fleiri hafa gegnt formannsembættinu síðan.

Félagið var fljótlega virkt í tónleika- og dansleikjahaldi ýmis konar, s.s. skemmtifundum, þorrablótum og árshátíðum en árshátíðir hefur það haldið margsinnis í samvinnu við þjóðdansafélagið, skemmtanir félagsins hafa verið haldnar víða um borgina (og úti á landi) en Glæsibær, Templarahöllin og Hreyfilshúsið hafa í gegnum tíðina verið vettvangur slíkra samkunda, fjölmargar hljómsveitir hafa starfað innan félagsins og oftar en ekki hafa þær verið tvær samtímis.

Hljómsveit félagsins frá því um 1980

Á tíunda áratug liðinnar aldar stóð FHUR fyrir eins konar höfundakynningum þegar skemmtikvöld voru helguð lagahöfundum og tónskáldum á borð við Svavar Benediktsson, Oddgeir Kristjánsson, Sigfús Halldórsson og Jónatan Ólafsson svo nokkur nöfn séu hér nefnd en þessar danslagahöfundakynningar nutu mikilla vinsælda.

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík stóð fyrir hæfileikakeppni í lok síðustu aldar en slík keppni hafði þá ekki verið haldin hér á landi síðan 1939, þar var keppt í þremur aldursflokkum og sigraði Matthías Kormáksson í elsta flokknum og fór sem fulltrúi Íslands á alþjóðlegt mót, þessi keppni hefur ekki náð að festa sig í sessi.

FHUR varð fyrst til að halda landsmót harmonikkuleikara (árið 1982 í Sigtúni) og síðan hafa þau verið haldin reglulega en félagið hefur jafnframt oft staðið fyrir innflutningi á erlendum skemmtikröftum, þekktum harmonikkuleikurum á borð við Emil Johansson frá Noregi og hinn sænska Lars Ek en sá síðarnefndi hefur margoft komið hingað til lands. Félagsmenn hafa jafnframt verið duglegir að halda Dag harmonikunnar hátíðlegan með ýmiskonar uppákomum og koma fram við ýmis viðeigandi tækifæri s.s. á Árbæjarsafni og verslunarmiðstöðvum fyrir jól, á sjómannadaginn, 17. júní, á Menningarnótt og viðlíka viðburðum. Frá því um aldamót hefur FHUR staðið fyrir harmonikkumótinu Nú er lag sem haldin er um verslunarmannahelgina ár hvert, fyrstu árin í Árnesi en síðar í Borgarfirði og Grímsnesi.

Félagið hefir ennfremur staðið að baki útgáfu á nokkrum plötum, á níunda áratugnum komu t.a.m. út þrjár vínylplötur sem höfðu að geyma tónlist með fjölmörgum harmonikkuleikurum (Líf og fjör með harmonikuunnendum (1980), Meira fjör með harmonikuunnendum (1984) og Á ferð með harmonikuunnendum (1987)) en einnig kom út geisladiskur (og kassetta) árið 1996 undir yfirskriftinni Á ferð og flugi með harmonikuunnendum. Þá þarf vart að geta þess að margir félagsmenn hafa gefið út plötur í eigin nafni.

Efni á plötum