Frímann (1989-90)

Frímann frá Akranesi

Hljómsveitin Frímann frá Akranesi vakti nokkra athygli vorið 1990 þegar hún hafnaði í öðru sæti Músíktilrauna, ekki varð þó um frekari frama sveitarinnar.

Frímann var líklega stofnuð 1989 og gekk í fyrstu undir nafninu Frímann & fokkararnir, undir því nafni spilaði sveitin eitthvað opinberlega á heimaslóðum en þegar sveitin var skráð til leiks í Músíktilraunum vorið 1990 hafði verið tekið aftan af nafni hennar. Meðlimir hennar voru þar Guðmundur Claxton trommuleikari, Ingþór Bergmann Þórhallsson bassaleikari, Erlingur Viðarsson gítarleikari, Kári Steinn Reynisson söngvari og Valgerður Jónsdóttir söngkona. Valgerður bættist í hópinn aðeins fáeinum dögum áður en sveitin steig á svið Músíktilrauna og svo virðist sem Kári Steinn hafi hætt mjög fljótlega eftir það. Áður hafði Gunnar Sturla Hervarsson verið söngvari sveitarinnar.

Frímann naut velgengni í tilraununum, komst í úrslit og gott betur því sveitin endaði í öðru sæti keppninnar á eftir Nabblastrengjum úr Hafnarfirði. Valgerður söngkona var kjörin besti söngvari Músíktilrauna það árið og sveitin hlaut einnig hljóðverstíma í verðlaun. Ekki liggur fyrir hvort sveitin nýtti sér tímana.

Sveitin lék töluvert um sumarið 1990 í kjölfar Músíktilraunanna, m.a. hitaði hún upp fyrir Kim Larsen á tónleikum á Akranesi og var síðan meðal fjölmargra sveita á Rykkrokk-tónleikunum síðar um sumarið.

Svo virðist sem Frímann hafi lagt upp laupana um haustið.