Bylting (1992-2004 / 2011-)

Bylting

Hljómsveitin Bylting á sér sögu sem nær allt til ársins 1989 þótt ekki hafi hún allan tímann starfað undir sama nafni og hvað þá samfleytt.

Kjarni sveitarinnar, sem er upphaflega frá Árskógsströnd, hefur starfað saman síðan árið 1989 en það var þó ekki fyrr en 1992 sem hún hlaut nafnið Bylting, áður gekk hún  undir nafninu Strandaglópar.

Meðlimir hennar voru á þessum fyrstu árum þeir Tómas Sævarsson hljómborðsleikari, Bjarni Valdimarsson bassaleikari, Þorvaldur Eyfjörð Kristjánsson gítarleikari, Frímann Rafnsson gítarleikari og Valur Halldórsson trommuleikari, þeir sungu flestallir en Valur var aðalsöngvari sveitarinnar.

Fyrstu árin lék Bylting mestmegnis á heimaslóðum fyrir norðan og einnig eitthvað á austanverðu landinu en árið 1995 fór sveitin að vekja meiri athygli þegar hún gaf út plötuna Ekta. Fyrst höfðu þeir félagar sent frá sér lag á safnplötunni Sándkurl II um sumarið 1995 en um haustið kom breiðskífan út. Hún tekin upp í Stúdíó Hljóðlist á Akureyri undir stjórn Kristjáns Edelstein, var tíu laga og áttu þeir sjálfir meginþorra laganna en Karl O. Olgeirsson samdi reyndar þrjú þeirra, textarnir komu flestir úr ranni Odds Bjarna Þorkelssonar. Platan fór ekki hátt en þrír dómar birtust um hana, hún hlaut ágæta dóma í Degi, sæmilega í DV en fremur slaka í Morgunblaðinu.

Um áramótin 1995-96 urðu þær mannabreytingar í Byltingu að Frímann gítarleikari yfirgaf sveitina, um leið kom Sigfús Óttarsson trommuleikari inn í hana og Valur færði sig frá trommusettinu og sinnti nú söngvarahlutverkinu einvörðungu.

Bylting frá síðara skeiði sveitarinnar

Eftir smá pásu um vorið 1996 fór Bylting af stað á nýjan leik til dansleikjahalds um sumarið, sveitin spilaði nú mun stopulla en áður og veturinn 1996-97 var hún meira og minna í pásu. Eitthvað var tekið upp af efni á þessum tíma en ekki var neitt gefið út.

Næstu árin fór enn minna fyrir sveitinni og eftir fjölmiðlaumfjöllun að dæma kom sveitin örsjaldan fram þar til hún mun hafa loks hætt alveg árið 2004. Einhverjar breytingar höfðu þá orðið á skipan sveitarinnar, árið 1998 hafði Sigfús trommari hætt og Trausti Már Ingólfsson tekið sæti hans en einnig virðist Sumarliði Helgason hafa gegnt stöðu söngvara árið 2001. Ekki liggja fyrir upplýsingar um aðrar breytingar.

Bylting lá í dvala í um sjö ár eða allt til ársins 2011 þegar hún var endurreist. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um hverjir skipuðu sveitina til að byrja með en hér er giskað á að meðlimir hennar hafi verið þeir Bjarni bassaleikari, Tómas hljómborðsleikari og Þorvaldur sem áður höfðu verið í sveitinni en nýir voru þeir Valgarður Óli Ómarsson trommuleikari og Heimir [?] söngvari og bassaleikari. Árið 2014 tók Eyþór Ingi Gunnlaugsson við af þeim síðast nefnda og þannig hefur Bylting líkast til verið skipuð síðan þá.

Sveitin er semsagt enn starfandi þótt ekki sé hún jafn virk og tveimur áratugum fyrr.

Efni á plötum