Búningarnir (1988)

Búningarnir

Hljómsveitin Búningarnir var í raun stofnuð til að fylgja plötu Bjarna Arasonar söngvara eftir hann hafði vakið mikla athygli sumarið á undan með því að vinna Látúnsbarkakeppnina svokölluðu.

Sveitin kom fyrst fram á sjónarsviðið vorið 1988 og var iðulega kynnt sem Bjarni Ara og Búningarnir. Aðrir meðlimir Búninganna voru Einar Bergur [?], Rúnar Guðjónsson [bassaleikari?], Þórir Úlfarsson hljómborðsleikari, Pétur Jónsson [trommuleikari?] og Arnar Freyr Gunnarsson gítarleikari. Sá síðast taldi hafði einnig tekið þátt í fyrrgreindri Látúnsbarkakeppni sumarið áður og starfað með Bjarna í annarri sveit, Vaxandi.

Búningarnir léku víða um land vor og sumar 1988 og á prógrammi sveitarinnar var að finna lög sem voru á plötu Bjarna Ara, Þessi eini þarna, en þeir félagar voru fyrst og fremst að fylgja þeirri plötu eftir. Sveitin lék m.a. á Listapoppi ´88 sem voru hluti af Listahátíð í Reykjavík en þar léku The Christians og The Blow monkeys auk nokkurra íslenskra sveita. Þá léku Búningarnir einnig á útihátíð sem haldin var í Atlavík um verslunarmannahelgina.

Látúnsbarkakeppnin var haldin í annað sinn síðsumars 1988 og svo bar við að Arnar Freyr gítarleikari Búninganna sigraði þá keppni. Búningarnir höfðu því tvo Látúnsbarka innan borðs og jókst vægi Arnars Freys sem söngvara innan sveitarinnar í kjölfarið.

Búningarnir störfuðu reyndar ekki lengi eftir þetta, hún mun hafa lagt upp laupana síðar um haustið.