Salbjörg Sveinsdóttir (1953-)

Salbjörg Sveinsdóttir

Salbjörg Sveinsdóttir (Salbjörg Hotz) er píanóleikari og tónskáld sem hefur um árabil búið og starfað erlendis en tvær plötur með tónlist hennar hafa komið út.

Salbjörg fæddist í Hnífsdal sumarið 1953 og sleit þar barnsskónum. Hún nam píanóleik hjá Ragnari H. Ragnar við Tónlistarskólann á Ísafirði og síðan hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hún lauk burtfararprófi. Að því námi loknu hélt hún til Vínarborgar til framhaldsnáms en þar í landi nam hún einnig skopmyndateikningu en hún þótti snemma drátthög, hún hefur m.a. gefið út bók með skopteikningum sínum.

Salbjörg bjó og starfaði í Austurríki um tíma, sinnti þar píanókennslu en fluttist svo til Búdapestar í Ungverjalandi og bjó þar í um eitt ár áður en hún kom heim til Íslands og hóf kennslu við tónlistarskólann í Njarðvíkum, ásamt svissneskum eiginmanni sínum en þaðan kemur Hotz nafnið. Eftir að hafa verið hérlendis í nokkur ár fluttust þau hjónin til Haifa í Ísrael þar sem hún sinnti tónlistarkennslu en hélt þar einnig tónleika eins og annars staðar þar sem hún hafði búið (einnig hér heima), hún lék í Ísrael bæði með öðru tónlistarfólki og sem undirleikari m.a. með alsískri söngkonu sem söng lög eftir Sigvalda Kaldalóns á tónleikum. Árið 1993 flutti Salbjörg til Sviss þar sem hún hefur búið síðan.

Árið 2000 kom Salbjörg heim til Íslands og í þeirri heimsókn hélt hún tónleika í Íslensku óperunni ásamt söngvurunum Bergþóri Pálssyni, Signýju Sæmundsdóttur og Birnu Ragnarsdóttur, sjálf lék hún undir á píanó. Tilefnið var lög sem hún hafði samið við ljóð Eðvarðs T. Jónssonar úr bókinni Aldahvörf en ljóðin eru byggð á sögu og kenningum Bahá‘í-trúarinnar. Tónleikarnir fengu góða hljómgrunn og í kjölfarið var ráðist í útgáfu á tónlistinni sem kom út á tveimur plötum annars vegar árið 2002, hins vegar 2007.

Salbjörg Hotz

Sú fyrri, fjórtán laga platan Sýn af eldi / Vision of fire kom út sumarið 2002 á vegum Fermata útgáfunnar og hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu en á henni sungu Bergþór og Signý. Halldór Víkingsson annaðist hljóðritun á plötunni sem og þeirri síðari sem kom út fimm árum síðar (2007) en hún hlaut titilinn Söngvar lifandi vatna / Songs of living waters og var gefin út af útgáfufyrirtækinu Gagnvirkni, sú plata fékk hins vegar mun slakari dóma hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins en Gunnar Guðbjörnsson og Sigurður Bragason sáu þar um sönginn.

Lítið hefur spurst til Salbjargar hin allra síðustu ár en hún býr í Sviss sem fyrr er frá greint.

Efni á plötum