Sextettinn (1975-77)

Sextett Einars Þ. Einarssonar

Hljómsveit sem gekk undir nokkrum nöfnum en verður hér skráð undir nafninu Sextettinn var starfrækt innan Menntaskólans við Tjörnina um skeið um og upp úr miðjum áttunda áratug síðustu aldar, sveitin vakti nokkra athygli fyrir spilamennsku sína en hún hýsti meðlimi sem síðar urðu þekktir tónlistarmenn og segja má að Sextettinn sé nokkurs konar undanfari Ljósanna í bænum.

Saga sveitarinnar hófst haustið 1975 þegar hún var stofnuð í Menntaskólanum við Tjörnina (síðar Menntaskólanum við Sund) undir nafninu Sextett Einars Þ. Einarssonar, meðlimir hennar voru þau Kristín Jóhannsdóttir söngkona, Stefán S. Stefánsson saxófón-, flautu- og píanóleikari, Sveinbjörn I. Baldvinsson gítarleikari, Gunnar Hreinsson bassaleikari, Guðjón Hilmarsson trommuleikari og Einar Þórarinn Einarsson (sem sveitin er kennd við), ekki liggur fyrir hvert hlutverk þess síðast talda var í sveitinni en hann gæti hafa verið aðalsöngvari ásamt Kristínu, öll sungu þau reyndar meira og minna enda lögðu þau mikið upp úr raddsetningum og söng. Tónlist sveitarinnar var illskilgreinanleg en um einhvers konar þjóðlagadjass var um að ræða, jafnvel skotin suður-amerískum áhrifum – frumsamin að sjálfsögðu.

Einar hætti fljótlega í sveitinni en þau hin héldu ótrauð áfram og spiluðu áfram undir nafninu Sextett Einars Þ. Einarssonar um tíma þrátt fyrir að vera hvorki sextett lengur né með Einar innanborðs. Svo fór að sveitin fór smám saman að kalla sig Sextett MT eða Sextett Menntaskólans við Tjörnina en um haustið 1976 þegar sveitin birtist aftur eftir hlé um sumarið hafði fjölgað um tvo í henni, Kristján Valsson ásláttarleikari og Guðlaugur Kristinn Óttarsson gítarleikari höfðu þá bæst í hópinn og um svipað leyti virðist Gunnar Hrafnsson bassaleikari hafa komið inn í sveitina í stað nafna sína Hreinssonar. Við þessar breytingar var nafni sveitarinnar breytt í Sextett eða Sextettinn enda voru meðlimir hennar ekki lengur einvörðungu úr MT.

Sextettinn

Sextettinn lék sína þjóðlagakenndu tónlist víða um borgina, aðallega þó í framhaldsskólum en einnig á opnum tónleikum með öðrum sveitum, t.d. á Jazzvakningar-kvöldum og vakti þar iðulega athygli fyrir góða spilamennsku en einnig kom sveitin fram í sjónvarpsþætti, meðal frumsaminna laga Sextettsins má nefna Tunglið, tunglið taktu mig eftir Stefán við ljóð Theódóru Thoroddsen en það lag átti eftir að koma síðar út á plötu Ljósanna í bænum og verða dægurlagaklassík sem allir þekkja.

Um vorið 1977 voru fjölmiðlar löngu farnir að gera því skóna að Sextettinn myndi senda frá sér plötu enda kom það einatt fram í blaðaviðtölum við sveitina að plötuútgáfa væri framundan. Sveitin spilaði áfram um sumarið en svo heyrðist ekki meira frá henni enda var hún þá hætt, platan kom hins vegar út ári síðar undir merkjum Ljósanna í bænum sem Stefán hafði stofnað í kjölfar þess að Sextettinn hætti, Gunnar bassaleikari var með honum í þeirri sveit en aðrir meðlimir fóru aðrar leiðir, Sveinbjörn stofnaði Ljóðafélagið sem gaf út Stjörnur í skónum um svipað leyti, þar kom Kristín við sögu sem og með hljómsveitinni Melchior og víðar, og Guðlaugur Kristinn birtist síðar í hljómsveitinni Þey.