Skólahljómsveitir Menntaskólans við Tjörnina (1970-76)

Menntaskólinn við Tjörnina (MT) starfaði á árunum 1969-76 en fluttist þá í húsnæði Vogaskóla við Gnoðarvog og var nafni hans við það tækifæri breytt í Menntaskólinn við Sund – hefur skólinn starfað undir því nafni síðan.

Á þeim tíma sem skólinn starfaði undir MT nafninu var þar að minnsta kosti einu sinni starfandi eiginleg skólahljómsveit, það var vorið 1970 og kom hún fram á svokallaðri Hungurvöku skólans – engar frekari upplýsingar er að finna um þá sveit.

Árið 1975 var síðan starfrækt hljómsveit innan skólans sem í byrjun var ýmist kölluð Skólahljómsveit MT eða Sextett MT en hlaut síðar nafnið Sextett Einars Þ. Einarssonar og enn síðar einfaldlega Sextettinn. Fleiri sveitir störfuðu innan skólans um svipað leyti en voru þó ekki skólahljómsveitir, það voru t.d. hljómsveitirnar Gullkorn, Fellibylurinn Þórarinn og Send að sunnan.