Skólahljómsveitir Menntaskólans á Laugarvatni (1958-)

Mono system úr Menntaskólanum á Laugarvatni

Menntaskólinn á Laugarvatni (ML) hafði lengi þá sérstöðu meðal menntaskóla að vera afskekktari en aðrir slíkir og því var jafnan lögð á það áhersla að hljómsveit væri starfandi innan skólans svo ekki þyrfti að sækja hljómsveitir um lengri vegalengdir til að leika á dansleikjum og öðrum skemmtunum.

Menntaskólinn að Laugarvatni var stofnaður 1953 og fljótlega eftir það komu skólahljómsveitir til sögunnar í skólanum, elstu heimildir um slíka sveit er að finna frá árinu 1958 og næstu árin á eftir voru mikið til sömu nemarnir sem skipuðu sveitina, Sigurður Rúnar Símonarson gítar- og trommuleikari, Ingimar Eydal harmonikku-, píanó- og klarinettuleikari, Baldur Ólafsson klarinettuleikari og Pétur Garðarsson trommuleikari, veturinn 1961-62 var eitthvert mannahallæri og þá starfaði sameiginleg sveit mennta- og héraðsskólans á Laugarvatni.

Í tvo vetur á eftir virðist ekki hafa verið starfandi hljómsveit innan skólans en frá árinu 1964 var þar samfleytt hljómsveitastarf lengi vel, þær sveitir gengu allar undir mismunandi nöfnum en voru þó eiginlegar skólahljómsveitir. Þetta voru sveitir eins og Mono system (1964-65), Hrafnar (1965-66), Vinir og vandamenn (1966-67), Yoga (1967-68), Frostaveturinn mikli 1918 (1968-69), Bóbó Pjeturs og fjölskylda (1969-70) og svo síðar Lótus, Orfeus o.fl.

Líkast til hurfu skólahljómsveitirnar smám saman með bættum samgöngum og ekki liggur fyrir hvernig þessum málum hefur verið háttað síðustu áratugina við Menntaskólann á Laugarvatni – upplýsingar þ.a.l. má gjarnan senda Glatkistunni.