Sextett Ólafs Gauks (1965-71)

Sextett Ólafs Gauks 1966

Tónlistarmaðurinn Ólafur Gaukur Þórhallsson rak hljómsveitir í eigin nafni um lengri og skemmri tíma nánast allan sinn starfsferil, allt frá því fyrir 1950 og fram á þessa öld, þekktust þeirra sveita var án nokkurs vafa Sextett Ólafs Gauks sem starfaði á árunum 1965 til 1971 og gaf þá út fjölda laga sem nutu mikilla vinsælda. Reyndar mætti segja að saga sveitarinnar sé mun lengri en árið 1971 fækkaði Gaukurinn í henni og við það hlaut hún nafnið Hljómsveit Ólafs Gauks. Þessi umfjöllun snýr þó eingöngu að sveitinni undir sextetts-nafninu.

Sextett Ólafs Gauks var stofnaður haustið 1965 og í upphaflegu útgáfu sextettsins voru meðlimir auk hljómsveitarstjórans sem lék á gítar, þeir Halldór Pálsson saxófónleikari, Björn R. Einarsson söngvari, básúnu- og harmonikkuleikari, Helgi E. Kristjánsson bassaleikari, Þórarinn Ólafsson flautu- og píanóleikari og Guðmar Marelsson trommuleikari, söngkona sveitarinnar var eiginkona Gauksins, Svanhildur Jakobsdóttir. Fljótlega tók Andrés Ingólfssson við af Halldóri og vorið 1966 var sveitin ráðin sem húshljómsveit í Lídó sem þá hafði verið starfræktur um nokkurra ára skeið sem unglingaskemmtistaður en hafði á þessum tímapunkti fengið vínveitingaleyfi.

Sextettinn sló strax í gegn og þrátt fyrir að bítlatónlistin með sveitir eins og Hljóma og Dáta í broddi fylkingar færu um með látum virtist sem tónlist Ólafs Gauks og félaga höfðaði til fjölda fólk og einkum þeirra sem eilítið eldri voru. Lídó varð því á fremur skömmum tíma einn alvinsælasti skemmtistaður borgarinnar og um leið vígi sextettsins.

Um haustið 1966 tók Guðmundur R. Einarsson bróðir Björns við trommuleiknum af Guðmari og um svipað leyti kom sveitin fram í fyrsta sinn í sjónvarpi allra landsmanna, Ríkissjónvarpinu sem tók til starfa það sama haust. Svo virðist sem Erla Traustadóttir hafi lítillega sungið með sveitinni þetta árið, þá líklega leyst Svanhildi af.

Í byrjun árs 1967 sendi sveitin frá sér sína fyrstu smáskífu, fjögurra laga plötu sem SG-hljómplötur gaf út. Þau Svanhildur og Björn skiptu með sér söngnum á plötunni og áttu sinn hvorn smellinn sem báðir hafa lifað góðu lífi til dagsins í dag, Segðu ekki nei og Því ertu svona upptökk? Ólafur samdi sjálfur fyrrnefnda lagið og alla texta plötunnar, hins lögin tvö hétu Bara þig og Ef þú vilt verða mín. Platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Um sumarið kom svo önnur fjögurra laga plata út með sveitinni, hún hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu og Vísi en heldur slakari í Alþýðublaðinu – eitt laganna, Húrra nú ætti að vera ball varð eitt allra vinsælasta lag ársins en hefur þó ekki náð sömu hæðum og mörg önnur lög með sveitinni frá þessum árum, hin lögin hétu Afmæliskveðja, Kveðja til farmannsins og Fjarri þér.

Úr sjónvarpsþáttunum Hér gala gaukar

Stór tíðindi voru í uppsiglingu en um haustið kvisaðist út að einn allra vinsælasti tónlistarmaður landsins, Rúnar Gunnarsson söngvari Dáta væri í þann mund að ganga til liðs við sextettinn en hann hafði þá m.a. sungið stórsmellina Leyndarmál og Gvendur á eyrinni og þótti jafnframt lunkinn lagahöfundur. Orðrómurinn reyndist sannur og Rúnar gekk í sveitina um leið og Carl Möller sem tók við Þórarni á píanóið og Páll B. Valgeirsson trymbill sem leysti Guðmund af hólmi en breytingin á liðsskipaninni var liður í því að ná til yngra fólks.

Sextett Ólafs Gauks hafði ekki skort vinsældir fram að þessu en við þessar mannabreytingar varð sveitin meðal allra vinsælustu hljómsveita landsins og því var eðlilegt að Sjónvarpið leitaði enn og aftur til sveitarinnar til að gera sjónvarpsþætti með henni en einn slíkur hafði einmitt verið gerður um vorið á undan. Þannig urðu þættirnir Hér gala gaukar afar vinsælir en í þeim flutti sveitin fjölda laga og skemmti landsmönnum með leiknum skemmtiatriðum, þættirnir voru á dagskrá sjónvarpsins með reglulegum hætti næstu tvö árin og nutu mikilla vinsælda en því miður hefur ekki nema lítill hluti þess efnis varðveist.

Sveitin var áfram húshljómsveit í Lídó veturinn 1967-68 við sömu vinsældir en sumarið 1968 fór hópurinn í fyrsta sinn út á landsbyggðina með söng- og skemmtidagskrá og dansleik á eftir, segja mætti að sveitin hafi þarna verið í fararbroddi slíkra ferða en Sumargleðin og fleiri sveitir áttu síðar eftir að feta í fótspor sextettsins. Svavar Gests var í för með hópnum, stjórnaði spurningakeppni og var kynnir á skemmtunum sem voru þetta sumarið undir yfirskriftinni Út og suður.

Sextettinn naut orðið gríðarlegra vinsælda og t.a.m. skemmti sveitin þrívegis á 17. júní-skemmtunum í höfuðborginni, þá bárust þær fréttir að tvær plötur væru væntanlegar um sumarið með sveitinni, smáskífa og breiðskífa sem margir biðu spenntir eftir enda var sveitin með einn allra vinsælasta söngvara landsins innanborðs. Smáskífan sem var fjögurra laga eins og hinar fyrri var hljóðrituð af Pétri Steingrímssyni eins og fyrri plöturnar, á henni var að finna stórsmellinn Undarlegt með unga menn sem Rúnar söng (og samdi) en hann söng tvö laganna, hitt lagið – Ef ég væri ríkur sungu þeir Gaukurinn reyndar saman en Svanhildur söng hin lögin tvö Bjössa á Hól og Ef bara ég væri orðin átján, fyrrnefnda lagið varð einnig nokkuð vinsælt. Platan hlaut eins og vænta mátti góðar viðtökur og hún fékk ágæta dóma í Alþýðublaðinu og mjög góða í Tímanum.

Um verslunarmannahelgina skemmti sveitin á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og um svipað leyti kom breiðskífan út, Fjórtán lög frá Þjóðhátíð Vestmannaeyja eftir Oddgeir Kristjánsson í útsetningum Ólafs Gauks. Sextettinn hafði þá fyrr um sumarið leikið í Eyjum og lagði töluvert mikla áherslu á að gera þetta sem best úr garði enda var Ólafur Gaukur mikill aðdáandi Oddgeirs Kristjánssonar, sem látist hafði tveimur árum fyrr. Þjóðhátíðarlagaplata sveitarinnar sló rækilega í gegn þó svo að ekki væru allir Eyjamenn sáttir við útsetningar Gauksins á sumum laganna enda voru (og eru) lög Oddgeirs sérstaklega mikils metin í Eyjum, með tíð og tíma voru lögin þó tekin í sátt af Eyjaskeggjum. Á plötunni er að finna lög eins og Sigling (Blítt og létt), Ágústnótt (Undurfagra ævintýr), Vorvísa (Ég heyri vorið), Fyrir austan mána, Heima, Ég veit þú kemur, Sólbrúnir vangar, Glóðir (Villtir strengir), Ship-o-hoj, Gamla gatan og Vor við sæinn (Bjartar vonir vakna), sem öll hafa öðlast klassískan sess í íslenskri tónlist, sum laganna höfðu áður komið út í meðförum annarra listamanna. Platan seldist auðvitað prýðilega, hafði um áramótin 1968-69 selst í á fjórða þúsund eintaka sem þótti prýðisgott, hún hefur margoft verið endurútgefin á vínyl og geislaplötum og mörg laga hennar er að finna á ógrynni safnplatna frá ýmsum tímum. Hún hlaut jafnframt ágæta dóma í Tímanum og varð reyndar í öðru sæti í sameiginlegu uppgjöri Tímans og Morgunblaðsins yfir bestu plötur ársins, platan var tímamótaplata á Íslandi að því leyti að hér var á ferð fyrsta breiðskífan sem hafði að geyma lög eftir einungis einn lagahöfund, þess má til gamans geta að Oddgeir sjálfur tók myndina af Vestmannaeyjabæ á umslagi plötunnar.

Sextett Ólafs Gauks, Svanhildur og Rúnar

Sveitin naut vinsældanna og þegar haustaði var ljóst að hún yrði ekki í Lídó þar sem staðurinn var þá kominn í eigu nýrra eigenda, sextettinn gerði hins vegar samning við Hótel Borg um að vera þar húshljómsveit og það þarf ekki að spyrja að því að aðsóknin að því húsi jókst í beinu samhengi við vinsældir sveitarinnar og snemma á vordögum 1969 bætti hún við sig tveimur kvöldum í viku í Þórscafé og lék þá flest kvöld vikunnar.

Um vorið 1969 kom út enn ein smáskífan með Sextett Ólafs Gauks, hún var fjögurra laga eins og hinar fyrri og innihélt lögin Út við himinbláu sundin, Tvisvar tveir, Kóngurinn í Kína og Fáð‘ér sykurmola, aðeins fyrst talda lagið – sungið af Svanhildi náði vinsældum en platan fékk þokkalega dóma í Vikunni. Þess má geta að lagið Tvisvar tveir (eftir Ólaf Gauk) hafði verið flutt í Áramótaskaupi Sjónvarpsins nokkrum mánuðum fyrr af Flosa Ólafssyni (í gervi Halls Sveins) undir heitinu Táraflóðið og fannst mönnum lagið of gott til að láta það fara forgörðum. Næstu áramót á eftir flutti Flosi svo lagið Það er svo geggjað að geta hneggjað og söng það lag sjálfur inn á plötu 1970.

Um svipað leyti og smáskífan kom út um vorið birtust fréttir í dagblöðum að væntanleg væri breiðskífa með sveitinni á vegum SG-hljómplatna þar sem hún myndi flytja lög eftir Sigfús Halldórsson, með svipaðri forskrift og Eyjaplatan hafði verið. Aldrei varð þó úr útgáfu þessara plötu en ári síðar kom út slík plata með systkinunum Elly og Vilhjálmi Vilhjálms – og naut að sjálfsögðu mikilla vinsælda.

Sumarið 1969 var með svipuðum hætti og sumarið á undan, landsbyggðin var heimsótt ásamt skemmtikröftunum Jörundi Guðmundssyni og Bessa Bjarnasyni undir yfirskriftinni Húllumhæ en ekki voru þó jafnmörg samkomuhús heimsótt og árið á undan. Framundan var líka heljarinnar ævintýri því sveitinni hafði verið boðið um haustið að fara utan til Þýskalands og leika þar í Hannover og Dortmund um nokkurra vikna skeið. Aðeins fáeinum vikum áður en ferðalagið hófst hætti Rúnar söngvari og bassaleikari skyndilega en þá var aðeins farið að örla á þeim andlegu veikindum sem urðu honum síðar að aldurtila, Halldór Kristinsson sem þá hafði verið í unglingasveitinni Tempó fáeinum árum áður hljóp í skarðið fyrir Rúnar í nokkur skipti en enginn annar en Vilhjálmur Vilhjálmsson tók svo við söng- og bassaleikarahlutverkinu rétt áður en sveitin hélt til Þýskalands.

Sextettinn lék í tvo mánuði í Þýskalandi við góðar undirtektir, kom aftur heim í nóvember og hafði þá úr fjölda tilboða að velja í Þýskalandi, á Kanaríeyjum og Sviss en kaus að koma heim enda hafði sveitin skuldbundið sig til að leika á Hótel Borg og Þórscafé um veturinn rétt eins og veturinn á undan, aukinheldur var Svanhildur þunguð af Önnu Mjöll dóttur þeirra hjóna (síðar söngkonu) en hún fæddist í ársbyrjun 1970.

Vilhjálmur var því einn söngvari sveitarinnar frá haustinu 1969 og þar til Svanhildur kom aftur til starfa í byrjun júní 1970 en um það leyti hætti hann í sextettnum því honum bauðst flugmannsstarf í Lúxemborg sem hann gat ekki hafnað enda hafði hann þá leitað lengi að þess konar starfi. Og fleiri mannabreytingar urðu á sveitinni fyrri hluta árs, Páll trommuleikari hætti í febrúar og virðist Engilbert Jensen hafa tekið sæti hans, og að einhverju leyti tekið við söngnum af Vilhjálmi þegar hann hætti. Annars eru upplýsingar nokkuð takmarkaðar um sveitina frá og með þessu tímabili, ekki liggur t.d. fyrir hver lék á bassa með sveitinni en líklega fækkaði í henni því smám saman hvarf „sextetts-nafnið“ af sveitinni og var hún æ oftar nefnd Hljómsveit Ólafs Gauks í auglýsingum og umfjöllun dagblaðanna.

Sextett Ólafs Gauks, Svanhildur og Vilhjálmur

Síðasta sumarið sem sveitin gekk undir nafninu Sextett Ólafs Gauks var því sumarið 1971 en þá fór hópurinn hringinn í kringum landið eins og áður en nú undir nafninu „Hér gala gaukar“, Jörundur Guðmundsson var með sveitinni að þessu sinni og fækkað hafði í sveitinni sem þá skipuðu Ólafur Gaukur á gítar, Andrés saxófónleikari, Carl píanóleikari og Alfreð Alfreðsson sem þá hafði tekið við trommusettinu og svo auðvitað Svanhildur söngkona. Hér vantar þó eitthvað inn í því tæplega hefur sveitin verið bassaleikaralaus.

Sextetts nafnið loddi eitthvað við sveitina fram á árið 1971 og miðast þessi umfjöllun um hana við það, þannig er svo litið á að Hljómsveit Ólafs Gauks sé önnur sveit þótt í grunninn sé hún hin saman.

Þótt sögu Sextetts Ólafs Gauks hafi formlega lokið 1971 átti sveitin eftir að birtast um áratug síðar þegar Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) hélt upp á hálfrar aldar afmæli sitt snemma árs 1982 m.a. með veglegum tónleikum þar sem margar af löngu hættum hljómsveitum komu fram, þeirra á meðal var sextettinn og voru meðlimir þeirrar útgáfu Ólafur Gaukur, Svanhildur, Carl, Alfreð, Björn, Helgi og Rúnar Georgsson saxófónleikari. Syrpa með lögum sveitarinnar kom út á tvöfaldri tónleikaplötu sem gefin var út af sama tilefni. Þess má og geta að sveitin var endurvakin árið 2009 þar sem hún kom m.a. fram á vetrarhátíð, þá var hún skipuð Gauknum, Svanhildi og Carli en auk þeirra voru í henni Kristján Kristjánsson (KK) söngvari, Stefán S. Stefánsson saxófónleikari, Stefán Ómar Jakobsson básúnaleikari, Eric Qvick trommuleikari og Finnbogi Kjartansson bassaleikari.

Mörg af þeim þrjátíu lögum sem sveitin sendi frá sér á árunum 1967-69 undir nafninu Sextett Ólafs Gauks hafa komið út á safnplötum í gegnum tíðina, hér má nefna plötur eins og Hornsteinar íslenskrar tónlistar (1992), Í dalnum: Eyjalögin sívinsælu (1999), Óskalög sjómanna (2007), Óskalaga-serían, Þrjátíu vinsælustu söngvararnir 1950-75 (1978), Manstu gamla daga? (2008) SG hljómplötur: 75 bráðskemmtileg dægurlög frá 1964-1982 (2014), Svona var-serían, Aftur til fortíðar-serían, Á sjó: fjórtán sjómannalög (1976) o.m.fl.

Efni á plötum