Sigfús Daðason (1928-96)

Sigfús Daðason

Ljóðskáldið Sigfús Daðason var langt frá því að vera tónlistarmaður og ljóð hans hafa ekki þótt hentug fyrir sönglagaformið enda óhefðbundin, þó er undantekning frá því. Ein plata kom út með skáldinu látnum þar sem hann les eigin ljóð.

Sigfús Daðason fæddist í Helgafellssveit á Snæfellsnesi 1928, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og svo prófi í latínu og samanburðarbókmenntum, frönskum og þýskum bókmenntum í París þar sem hann dvaldi lengi vel. Hann var fyrst og fremst ljóðskáld, var eitt af atómskáldunum svokölluðu sem brutu upp hefðbundna formið og ruddu braut slíkra ljóða hér á landi. Hann var ekki afkastamikið ljóðskáld, sendi þó frá sér fáeinar ljóðabækur en fékkst einnig við þýðingar og önnur ritstörf. Þá var hann ritstjóri Tímarits Máls og menningar um árabil, í stjórn Bókmenntafélags Máls og menningar og stjórn Rithöfundasambandsins.

Sigfús lést síðla árs 1996 sextíu og átta ára gamall og um ári síðar kom út hjá Forlaginu plata með ljóðaupplestri skáldsins undir titlinum Sigfús Daðason les eigin ljóð. Á henni er að finna fimmtán ljóð, hljóðrituð á árunum 1985 til 95. Á plötu Tómasar Jónssonar frá árinu 2016, sem ber nafn Tómasar er að finna eitt þeirra ljóða (The city of Reykjavík) þar sem skáldið les sjálfur ljóðið við undirleik Tómasar, að öllum líkindum er um sama upplestur að ræða og á ljóðaplötu Sigfúsar. Ingvi Þór Kormáksson samdi einnig lag við þetta sama ljóð og kom það út á plötu Ingva Þórs árið 1983, Tíðindalaust.

Efni á plötum