Sigríður Björnsdóttir (1918-2007)

Sigríður Björnsdóttir

Sigríður Björnsdóttir var alþýðukona vestan af Ströndum sem lét á gamals aldri gamlan draum rætast og gaf þá út plötu þar sem hún söng íslensk einsöngslög.

Sigríður fæddist haustið 1918 og kenndi sig alltaf við Kleppustaði í Staðardal í Strandasýslu en þar bjó hún á æskuárum sínum. Hún var elst tólf systkina, þótti snemma vel sönghæf og þrátt fyrir hvatningu föður hennar um að hún skyldi læra söng lét hún alltaf annað og aðra ganga fyrir. Hún hóf að syngja með kirkjukór Staðarkirkju á unglingsárum og síðan með kirkjukór í Leirársveit þar sem hún bjó um árabil áður en hún flutti á Akranes þar sem hún starfaði þar til hún var komin á eldri ár en þá flutti hún aftur vestur á Strandir þar sem hún bjó til æviloka. Hún lét sig mál Staðarkirkju í Steingrímsfirði miklu varða á efri árum en kirkjan var þá ekki lengur í notkun, hún lét leggja rafmagn í kirkjuna, keypti orgel og altarisklæði í hana og lét endurgera turn kirkjunnar.

Sigríður (sópran) lærði aldrei söng, naut reyndar einhverrar tilsagnar hjá Sigurveigu Hjaltested á Leirársveitarárum sínum en lærði svo nótnalestur á efri árum sínum, þá söng hún einnig með kirkjukór Hólmavíkurkirkju. Hún var svo komin á níræðis aldur þegar hún setti sig í samband við Úlrik Ólason (sem var bróðir Sigríðar Óladóttur sóknarprests á Hólmavík) og fékk hann til liðs við sig að taka upp demóupptökur af nokkrum lög fyrir sunnan.

Þegar Þórarinn Stefánsson hjá nýstofnuðu útgáfufyrirtæki Polarfoniu heyrði upptökurnar bauðst hann til að gefa út plötu með Sigríði en hún kom svo út haustið 1999 í litlu upplagi undir titlinum Hve glöð er vor æska, alls var um að ræða sextán íslensk lög sem Sigríður söng við píanóundirleik Úlriks. Platan, sem hlaut útgáfustyrk frá framkvæmdastjórn Árs aldraðra, vakti nokkra athygli einkum vegna aldurs Sigríðar en hún hlaut jafnframt prýðilega dóma í Morgunblaðinu, plötuna tileinkaði hún minningu foreldra sinna.

Sigríður lést síðla árs 2007 á nítugasta aldursári.

Efni á plötum