Silfurtunglið [tónlistartengdur staður] (1955-75)

Silfurtunglið var á efri hæð Austurbæjarbíós

Skemmti- og veitingastaðurinn Silfurtunglið við Snorrabraut 37 var vinsæll meðal Reykvíkinga um tveggja áratuga skeið á skeiði ýmissa tónlistarstefna og þar skemmti fólk sér við rokk, bítl, hipparokk og „brennivínstónlist“ auk gömlu dansana. Húsið var þó löngum umdeilt vegna staðsetningar þess enda í miðri íbúðabyggð og það varð á endanum til þess að skemmtistaðnum var lokað.

Hið tveggja hæða Austurbæjarbíó hafði verið byggt við lok styrjaldar, um miðjan fimmta áratuginn og vígt árið 1947 en það var upphaflega teiknað sem tónleikastaður og því eitt allra fyrsta hús hér á landi sem hannað var til tónleikahalds, þar voru gjarnan haldnir tónleikar í aðalsal hússins á neðri hæðinni (kvikmyndasalnum) en árið 1955 opnaði skemmti- og veitingastaðurinn Silfurtunglið í nyrðri hluta efri hæðar hússins en þar voru Axel Magnússon og Sigurgeir Jónasson rekstraraðilir. Nafn skemmtistaðarins má klárlega rekja til þá nýlegs leikrits Halldórs Laxness sem hét þessu sama nafni en það hafði verið frumsýnt 1954 og var heilmikið í umræðunni. Þess má til fróðleiks geta að húsið stóð upphaflega við Hringbraut en sú gata náði eins og nafn hennar gefur til kynna nánast í hring utan um miðbæinn allt vestur á Ánanaust, Snorrabraut og Ánanaust fengu sín nýju nöfn árið 1948 en Hringbraut varð eftir það „bein leið“.

Silfurtunglið varð strax afar vinsæll bæði sem veitingahús þar sem fólk settist gjarnan niður og fékk sér kaffisopa, og þá ekki síst sem skemmtistaður unga fólksins og þegar staðurinn naut sem mestrar hylli var opið þar sex kvöld vikunnar og þar dansaði fólk yfirleitt undir lifandi tónlist. Staðurinn hafði fyrst um sinn ekki vínveitingaleyfi fremur en flestir dansstaðir bæjarins en fólk hafði eins og annars staðar ýmis úrræði til að smygla með sér víni inn í húsið og þar var drukkið stíft eins og víða annars staðar. Salurinn rúmaði um 150-200 manns og iðulega var þar troðfullt flest kvöld þegar staðurinn var sem vinsælastur, hann var einnig leigður undir hvers konar samkomuhald og voru ýmis félagasamtök og fyrirtæki sem héldu þar fundi, árshátíðir og skemmtanir.

Húsið í byggingu árið 1945

Flestar ef ekki allar af vinsælustu hljómsveitum hvers tíma léku í Silfurtunglinu og var Hljómsveit Jose Riba fyrst þar til að leika en hún var húshljómsveit fyrstu árin. Síðar komu til sögunnar sveitir eins og Hljómsveit Aage Lorange, Hljómsveit Karls Jónatanssonar, Tríó Reynis Sigurðssonar, Hljómsveit Magnúsar Randrup og Hljómsveit Finns Eydal en þegar yngri tónlistarmenn tóku til við að stofna rokkhljómsveitir um og eftir 1960 komu til sveitir eins og Fimm í fullu fjöri, Garðar og Gosar, Sóló og Pónik, Hljómar og Flowers voru svo meðal bítlasveita sem þar spiluðu og Júdas, Mánar og Óðmenn voru svo fulltrúar hippakynslóðarinnar. Síðustu árin voru meira helguð svokallaðri „brennivínstónlist“ og þá léku þar mikið til hljómsveitir sem gerðu út á stuð með ábreiðuefni, diskótek og gömlu dansarnir fengu þó alltaf pláss í húsinu einnig og stöku sinnum komu þar fram erlendir skemmtikraftar.

Silfurtunglið hlaut vínveitingaleyfi árið 1960 og með því virðist hávaðinn hafa aukist í kringum húsið og raskað ró nágrannanna í Norðurmýrinni, áður hafði sem fyrr segir víni verið smyglað inn með gestum en hávaðamengunin varð öllu meiri þegar hægt var að kaupa áfengi á barnum. Staðurinn varð því umdeildur meðal nágrannanna og stóð nokkur styr um málið í mörg ár. Svo kom að því að lokum að borgarráð ákvað að endurnýja ekki vínveitingaleyfi Silfurtunglsins haustið 1975, þar með var rekstrargrundvöllurinn brostinn og staðurinn lokaði í október.

Efri hæðin stóð þó ekki lengi ónotuð því að í mars 1976 opnaði þar Snorrabær sem gekk þar um tíma. Og nafnið Silfurtunglið hefur fylgt húsinu í raun síðan því löngu síðar var stofnað leikfélag sem bar sama nafn og var með leiksýningar í húsinu, og árið 2012 opnaði veitingastaður á efri hæðinni undir Silfurtungls-nafninu einnig – sá staður var reyndar skammlífur. Um tíma stóð til að rífa húsið og byggja þess í stað fjölbýlishús á reitnum en frá því var horfið enda telst húsið gegna menningarsögulegu hlutverki og því hefði orðið stórslys í því samhengi. Fólk getur því enn yljað sér við minningar frá dansleikjum í Silfurtunglinu þegar það fer um Snorrabrautina.