Afmælisbörn 18. október 2021

Magni Friðrik Gunnarsson

Í dag koma þrjú tónlistartengd afmælisbörn við sögu Glatkistunnar:

Magni Friðrik Gunnarsson gítarleikari frá Akureyri er fimmtíu og fjögurra ára gamall í dag. Magni er kunnastur fyrir framlag sitt með Stuðkompaníinu sem sigraði Músíktilraunir 1987 en hefur svosem komið mun víðar við á sínum tónlistarferli, hann hefur leikið og sungið í sveitum eins og Foringjunum, Twist & bast, Steðjabandinu og Hljómsveit Steingríms Stefánssonar auk þess að syngja í ýmsum kórum en starfar í dag með sveitum eins og Skyttunum, South river band og þjóðlagasveitinni Kólgu.

Þá á Rúnar Halldórsson fjörutíu og eins árs afmæli á þessum degi. Rúnar er annar bræðranna sem skipaði tvíeykið The Boys á bernskuárum sínum í Noregi þar sem þeir bjuggu. The Boys slógu rækilega í gegn ytra á þremur plötum þar sem þeir sungu gamla slagara frá sjötta og sjöunda áratugnum. Minna hefur farið fyrir Rúnari hin síðari ár en hann starfrækti hljómsveitina Spinoza ásamt bróður sínum og fleiri í kringum aldamótin, hann býr nú erlendis.

Hér er að síðustu nefnd Alexandra Chernyshova sópran söngkona en hún er fjörutíu og tveggja ára gömul í dag. Hún hefur búið hér og starfað hér á landi síðan 2003 en hún er úkraínsk að uppruna. Alexandra hefur verið framarlega í lista- og menningarlífinu í Skagafirði og víðar með stofnun óperu og kóra, kennslu og tónleikahaldi en hún hefur jafnframt sent frá sér plötur.

Vissir þú að Rúnar Þór Pétursson var eitt í hljómsveit sem hét Blackbird?