300 textar bætast í Glatkistuna

Venju samkvæmt á miðvikudögum bætist við efni á Glatkistuna en að þessu sinni er ekki um að ræða viðbót við gagnagrunn síðunnar heldur textaflóruna, ríflega 300 söng- og dægurlagatextar frá ýmsum áttum og tímum bætast nú í þann flokk.

Þess má geta að á næstu dögum mun tíu þúsundasta Glatkistufærslan líta dagsins ljós en vefsíðan fagnar sjö ára afmæli um þessar mundir – hún fór í loftið um mánaðamótin október / nóvember árið 2014. Mikill meirihluti færslna Glatkistunnar er helgaður gagnagrunninum en þar er nú að finna upplýsingar um á fimmta þúsund hljómsveita, tónlistarflytjenda, tónskálda og textahöfunda, útgáfufyrirtækja, tónlistatengdra staða o.fl. auk þess sem eitthvað á þriðja þúsund sönglagatexta er þar að finna einnig. Glatkistan hefur jafnframt að geyma ýmislegt annað áhugavert efni um íslenska tónlist s.s. greinar, viðburðafréttir og afþreyingarefni svo ekki sé minnst á afmælisbörn dagsins en nánast alla daga ársins birtast fréttir af tónlistartengdum afmælisbörnum og er heildarfjöldi þeirra nálægt 1400 og fer stöðugt fjölgandi.

Síðustu mánuðina hafa um 12-18 þúsund gestir heimsótt vefsíðuna í hverjum mánuði og fjölgar þeim eðlilega í takt við efnið sem bætist við gagnagrunninn og textasíðurnar, enn er mestmegnis unnið við að vinna færslur um efni frá síðustu öld þannig að fólk getur ekki vænst þetta að finna mikið af nýju tónlistarfólki og hljómsveitum – að minnsta kosti ekki strax.