Um 500 textar bætast við Glatkistuna

Á miðvikudögum er venjan að nýtt efni bætist í gagnagrunn Glatkistunnar en að þessu sinni er brugðið út af vananum í tilefni af Degi íslenskrar tungu og bætt í textaflóruna í staðinn, yfir fimm hundruð textar af ýmsu tagi hafa þannig bæst við textabanka síðunnar í viðbót við þá tvö þúsund og eitt hundrað sem voru fyrir. Herði Björgvinssyni er hér þakkað sérstaklega fyrir hans framlag.

Í næstu viku verður nýtt efni á síðunni svo aftur með hefðbundnum hætti og meðal nýs efnis sem væntanlegt er á næstu vikum má nefna umfjöllun um sjálfa Stuðmenn þar sem  hægt verður að lesa 50 ára sögu þeirra og allar upplýsingar um útgefið efni sveitarinnar. Slíkar umfjallanir um hljómsveitir, tónlistarfólk, kóra, útgáfufyrirtæki o.s.frv. eru nú farnar að nálgast fimm þúsund á Glatkistunni.

Annars er af Glatkistunni að frétta að um fimmtán þúsund gestir heimsækja vefinn í hverjum mánuði með um þrjátíu þúsund flettingar og hefur umferðin um síðuna aukist jafnt og þétt frá upphafi en hún fór í loftið haustið 2014. Hins vegar gæti farið styttast í endalok síðunnar þar sem ekki hefur fengist fjármagn til að styrkja verkefnið þrátt fyrir tugi styrkumsókna til hins opinbera (og víðar) síðustu árin, björgun menningarverðmæta er þar líklega ekki á stefnuskrá. En er á meðan er, og Glatkistan þakkar fyrir allt klappið á bakið frá almenningi hvort sem það hefur verið í formi tölvupósta eða með öðrum hætti.