Yfir 300 textar bætast við Glatkistuna

Um 330 textar bætast nú við textaflóru Glatkistunnar þetta miðvikudagseftirmiðdegi og kennir þar ýmissa grasa – til að mynda er fjöldi nýútkominna texta meðal þeirra. Þetta eru textar með listamönnum eins og Bríeti, Myrkva, Emmsjé Gauta, Afkvæmum guðanna, Björgvini Halldórssyni, Elínu Halldórsdóttur, Baggalúti, Róberti Erni Hjálmtýssyni (hljómsveitinni Ég) o.fl. en hér má einnig finna mikinn fjölda eldri texta s.s. með Stuðmönnum, Todmobile, Gumma Jóns, Elly Vilhjálms, Bergþóru Árnadóttur og fjölda annarra flytjenda. Margir leita uppi jólatexta þessa dagana á Glatkistunni og hafa Snjókorn falla, Ég hlakka svo til og Ef ég nenni verið áberandi vinsælastir þeirra, það má reikna með það verði áfram næstu vikurnar.

Og að öðru – örlítið mun bætast í afþreyingapakka Glatkistunnar í jólamánuðinum, tvær krossgátur munu líta dagsins ljós fyrir jól (þar af verður önnur þeirra jólakrossgáta) en einnig mun ný spurningagetraun – jafnvel tvær, bætast í þann flokk. Getraunir Glatkistunnar eru nú orðnar á þriðja tug þannig að allir ættu að geta fundið sér einhvers konar afþreyingu um jólahátíðirnar framundan.